150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:16]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019–2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2023. Þetta er þykkt plagg, 24 blaðsíður. Eiginlega mætti hafa það í gjafaumbúðum með slaufu. Ég er ekki mjög bjartsýnn á að þetta virki. Það er ýmislegt að varast. Þar má nefna þegar málefni fatlaðra fóru yfir til sveitarfélaga. Það var framkvæmt en virkaði ekki nógu vel, fjármagn vantaði. Við vitum hver staðan er núna í NPA, notendastýrðri persónulegri aðstoð. Það er vitað mál að mörg sveitarfélög munu aldrei ráða við þann málaflokk og þar af leiðandi verða þeir aðilar sem búa í viðkomandi sveitarfélögum að færa sig um set ef þeir ætla að reyna að fá slíka þjónustu. Við vitum líka að því lengra frá höfuðborgarsvæðinu sem sveitarfélögin eru, þeim mun verri er þjónustan. Einhverra hluta vegna virðist flóttinn vera mestur frá sveitarfélögum sem fjærst eru. Þar er líka annað sem maður hefur séð undanfarið og ég óttast mest við sameiningu sveitarfélaga, eins og þegar talað er um að sameina allt Suðurlandið í eitt sveitarfélag, Árnesþing, að vegalengdirnar verða gígantískar. Maður óttast líka að fram fari hreppaflutningar á börnum í skóla. Við höfum séð myndir af langri keyrslu með börn eftir svo holóttum vegum að það er eiginlega furða að bíllinn hristist ekki hreinlega í sundur. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að bjóða börnum upp á svona þjónustu? En það er gert, því miður. Við á höfuðborgarsvæðinu höfum líka séð hvernig hægt er að klúðra frábærum hugmyndum, sem eru kannski 30–40 ára gamlar. Ég get tekið dæmi sem ég hef oft tekið í ræðum af svokölluðum ofanbyggðavegi sem átti að byggja fyrir ofan Hafnarfjörð, Garðabæ og Kópavog og tengja síðan Vesturlandsvegi og Suðurlandsvegi. Þessu er búið að klúðra gjörsamlega. Þetta hefði verið mikil framför í vegamálum hér á landi. Ég hef oft sagt að það er alveg fáránlegt að við skulum enn vera með þá fáránlegu vegaframkvæmd að ef maður kemur með flugi til Reykjavíkur þurfi maður að fara í gegnum öll sveitarfélögin nema eitt, Seltjarnarnes, til að komast vestur á land.

Það er líka svolítið undarlegt í þessu samhengi hvernig við ætlum að fjármagna þetta. Það er svolítill tendens og við höfum séð það hvernig kerfið, ríkisbáknið, þenst út. Þarna erum við að sameina og tölum um að spara og hagræða með því að sameina rúm 70 sveitarfélög niður í ein 30 í fyrsta áfanga. En á sama tíma skilur maður ekki að á tíu árum hefur ríkinu tekist einhvern veginn á undarlegan hátt að þenja eftirlitskerfið út um helming í kostnaði. Í mannfjölda úr 200 í 600–700. Við erum að gera eitthvað með vinstri hendinni sem við rífum yfirleitt niður með hægri.

Því óttast ég að þetta sé bara glansbæklingur og eigi því miður eftir að bitna á fólki. Við erum t.d. með í dæminu nýja skatta sem sveitarfélögin verða sennilega að innheimta, sem eru sorpeyðingarskattar. Þar óttast ég að þeir bitni mest á þeim sem síst skyldi og henda minnstu af sorpi. Það er fólkið sem hefur minnst handa á milli. Því miður. Ef við ætluðum að gera þetta af einhverju viti ættum við að vigta úrgang frá hverri einustu fjölskyldu. En það kostar auðvitað sitt. Annars ættum við að byggja þetta þannig upp að þessi skattur væri tekjutengdur. Það er kominn tími á að við förum að hugsa þetta miðað við öll gjöld og annað. Ef hann væri tekjutengdur kæmi hann jafnt niður á öllum, sama hversu háar tekjurnar væru, en ekki eingöngu verst niður á þeim sem síst skyldi og hafa minnst til framfærslu.

Við erum að skemma ákveðna hluti. Við erum búin að rústa því að konur geti fætt í heimabyggð. Við erum búin að rústa ákveðnum kerfum sem virkuðu vel hér áður fyrr meðan við vorum með miklu minna samfélag. Samt virkaði að vera með sjúkrahús í landsfjórðungum. Menn virðast ekki horfa á hlutina í réttu ljósi og gera því ranga hluti. Ég hef ekki mikla trú á að þetta plagg breyti því. Mér finnst það ekki bera það með sér.