150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir þetta frumvarp og ræðu hans og innlegg í það sem við þingmenn höfum verið að ræða. Ég get tekið undir það sem kom fram í áhugaverðri upprifjun hv. þingmanns sem talaði á undan mér, þar sem farið var yfir söguna. Mér sýnist mestur ágreiningur vera um þessi sameiningarmál og þau eru alltaf viðkvæm. Ég hef verið þeirrar skoðunar í gegnum tíðina að ekki eigi að beita lögþvingun. Ég hef svo sem ekkert horfið frá þeirri skoðun en tek hins vegar að allflestu leyti undir þau markmið og þær áherslur sem hér eru undir.

Mér finnst mjög margt gott í frumvarpinu og meira og minna allt það sem drepið er á. Ég vek athygli á bls. 3 þar sem talað er um samstarf við framkvæmd áætlunarinnar og samráð um málefni sveitarfélaga. Þar er verið að tala um samráð milli þings og ráðuneyta og sambandsins, að Alþingi fái reglulega skýrslu um framvindu og framkvæmd þeirrar stefnu sem hér er mörkuð. Það er með þessa stefnu eins og aðrar að mjög nauðsynlegt er að þingheimur sé upplýstur um það sem fram undan er. En hér eru stórir hlutir undir og risagulrót í boði, þegar kemur að því að sameina sveitarfélög, í gegnum jöfnunarsjóð. Mér finnst ekki fullur rökstuðningur fyrir tilteknum fjárhæðum sem hafa verið nefndar en nefndin fer væntanlega yfir það og skoðar hvernig það hefur verið fundið út.

Þegar við þingmenn förum um kjördæmin okkar, og ráðherrar eins og aðrir, heyrum við ákveðin sjónarmið um þessi sameiningarmál og því er ekkert að leyna að litlu sveitarfélögin urðu undir. Þetta varðar þau, þau urðu undir á landsþingi. Ég þekki það sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður að sumar sameiningar hafa tekist betur en aðrar, einhverjar hafa tekist ágætlega en aðrar ekki eins og hér hefur verið rakið. Maður heyrir stærri sveitarfélögin kvarta yfir því að ævinlega sé verið að borga með þeirri þjónustu sem þau gera samninga um við þau minni. Það er auðvitað hægt að leysa með því að rukka meira fyrir þá þjónustu sem samið er um. Þá má heldur ekki gleyma því að stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru líka með samstarf af margs konar tagi eins og þau litlu. Ég held að þetta verði erfitt viðfangs í þinginu en ég skil að einhverju leyti hugmyndafræðina á bak við þetta. En jaðarsvæðin, þar sem allt gengur ágætlega, verða samt áfram jaðarsvæði. Ég get nefnt Grýtubakkahrepp sem dæmi, það er sama hverjum hann sameinast, hann verður alltaf jaðarsvæði. Þá hefur fólk áhyggjur, í ljósi reynslunnar, í ljósi þess hvernig farið hefur mjög víða. Ég er samt mjög spennt fyrir tilraunaverkefninu sem verið er að vinna á Austurlandi, ég held að það geti orðið nesti inn í það sem koma skal. Ég veit ekki alveg hvort tímabært er að taka þá ákvörðun. Við þekkjum líka að í mjög dreifðum sveitarfélögum hafa hlutirnir tilhneigingu til að sogast inn á ákveðna staði og því finnst mér þessi hugmynd eins og hún er lögð upp, með dreifðri stjórnsýslu, með fjármunum sem fylgja og ákvörðunum sem áfram á að taka í hverri einingu fyrir sig, verklag sem gæti komið til með að virka og verða hvatning fyrir önnur sveitarfélög til að sameinast.

Auðvitað á ekki að loka neinum dyrum, eins og sagt var áðan, og horfa þarf á verkefnið til langrar framtíðar. En ég held að þarna sé komið verkefni sem nær yfir stórt og mikið landsvæði — það eru ekki nema 5% landsmanna í þessum fámennu sveitarfélögum, frá Djúpavogi, niður á Borgarfjörð eystri og niður á Seyðisfjörð — og þar þurfa samgöngur að vera í lagi til að hlutirnir geti gengið. Ef það dæmi tekst vel gæti það orðið hvatning til annarra sveitarfélaga. Mér fannst áhugavert að ráðherra svaraði því til áðan með þjónustu á milli sveitarfélaga að fólk kysi ekki endilega fulltrúa sína til að framkvæma það sem litla sveitarfélagið þyrfti á að halda. Það má vissulega vera rétt. Ég veit ekki hversu mikið fólk leiðir hugann að því á hverjum tíma en ég ætla kannski ekki að hafa neitt sérstaklega mörg orð um það.

Maður hefur alltaf stuttan tíma í svona stór og viðamikil mál en það verður gaman að taka þátt í umræðunni þegar málið kemur hingað til baka aftur. Ég held að starfsaðstæður kjörinna fulltrúa séu gríðarlega mikilvægt mál, það þarf að taka vel fyrir. Innan sambandsins hefur mikið verið unnið með það mál og reynt að búa til viðmiðanir og annað slíkt. Það er allt of mikið um það að sveitarstjórnarfólk í stærri samfélögum — og þó skiptir stærð sveitarfélagsins kannski ekki öllu máli því að verkefnin eru mörg stór — hafi ekki tækifæri til að sinna undirbúningi. Norðurþing bjó þannig um hnútana að fólk gæti a.m.k. verið í hálfu starfi og það finnst mér gott. Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju stórt sveitarfélag eins og Akureyri miði ekki við að um fullt starf sé að ræða. Ef maður horfir til sveitarfélaga af þeirri stærðargráðu eða stærri fyndist manni að þannig ætti það að vera svo að fólk sé raunverulega undirbúið og að hægt sé að krefjast þess að það komi ekki á handahlaupum inn á fundi. Svo þarf að leiða hugann að stöðu kynjanna, að þessari miklu veltu í sveitarstjórnum. Konur endast skemur í starfi og það þarf að miða við að fundir séu ekki alltaf eftir kl. 5 á daginn o.s.frv. Það myndi þá falla undir starfsaðstæður og kjör sveitarstjórnarfulltrúa. Ég held að það sé partur af því að gera starfið aðlaðandi. Í minni sveitarfélögum, jafnvel þótt þau séu ekkert óskaplega smá, er sú þjónusta sem veitt er líka rædd úti í kjörbúð og það getur verið erfitt, fólk er ekki bara í vinnunni inni á vinnustaðnum.

Ég nefni einnig umrætt tilraunaverkefni sem á að koma á fót, lýðræðislegan vettvang. Það snýr að almenningi. Þessi tilraunaverkefni eru, að mér sýnist, komin af stað á Akureyri. Akureyrarkaupstaður er nefndur hér en hann var, held ég, að afsala sér kaupstaðartitlinum. En já, ég held að þetta sé líka mikilvægt. Við höfum talað um það í ótalmörg ár að búa verði til lýðræðislegan vettvang fyrir fólk sem býr á umræddum stöðum. Einhvern veginn komumst við aldrei neitt lengra. Fólk er orðið svolítið latt við að mæta á fundi, bara svona yfirleitt, ekkert í þessu frekar en í öðru, og því fyndist mér að við ættum hreinlega að gera það að skyldu að sveitarfélög sendi öll út frá fundum sínum í mynd, ekki aðeins í hljóði, og að það sé aðgengilegt eftir á þannig að fólk sem ekki hafði tíma til að horfa á beina útsendingu geti fylgst með og rifjað upp það sem sagt hefur verið á sveitarstjórnarfundum og snertir daglegt líf þess.