150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

stefnumótandi áætlun í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019--2033 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2023.

148. mál
[12:44]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrir framsöguna og fyrir að leggja fram þetta ágæta mál. Ég held að það sé líka full ástæða til að biðja ráðherra fyrir sérstakar þakkir til starfshópsins sem vann málið. Það er afar mikilsvert að við fjöllum um málefni sveitarfélaganna á þinginu. Þetta er hitt stjórnsýslustigið, ef svo má segja. Þarna eru mjög mikilsverðar ákvarðanir teknar sem snúa að nærumhverfi íbúanna og mjög mikilvægt að við höfum stefnu í því hvernig um það á að búa. Eins og þingmönnum er vafalítið kunnugt um hefur farið fram töluverð umræða, bæði úti í samfélaginu og í sveitarfélögunum og sveitarstjórnunum, um það með hvaða hætti þær sjái fyrir sér úrvinnslu þessara tillagna. Það sem hefur kannski mest verið rætt, eins og hv. þingmenn hafa nokkuð komið inn á, er einmitt þetta með lágmarksfjölda íbúa.

Það eru um tíu ár síðan ákvæði um lágmarksíbúafjölda voru tekin út úr lögunum. Ég var í starfshópnum sem vann að gerð þeirra laga á sínum tíma og þekki því þá umræðu ágætlega en þá var sú leið valin að taka fjöldann út. Ég held hins vegar að síðan það gerðist hafi orðið ýmsar breytingar á sveitarstjórnarstiginu, m.a. þær að sveitarfélögin hafa tekið að sér býsna stórt og viðamikið verkefni, þ.e. málefni fatlaðs fólks, sem leggur enn aðrar skyldur á sveitarfélögin en þau höfðu fyrir og voru þær þó ærnar. Ég hef dálítið sveiflast í gegnum tíðina með það hvort það ætti að vera einhvers konar lagaleg umgjörð eða ekki um það hversu margir íbúar sveitarfélaga eigi að vera og hef lengst af verið þeirrar skoðunar að lögþvingan ætti kannski ekki við, væri að einhverju leyti varhugaverð. Ég held hins vegar að við séum bara komin þar að með verkefni sveitarfélaganna að við verðum hreinlega að skoða þetta af fullri alvöru. Það eru líka ýmsir lýðræðisþættir sem snúa að þessu, til að mynda það að íbúar sveitarfélags sem sér ekki sjálft fyrir megninu af þjónustu sinni heldur kaupir hana af einhverju öðru hafa í rauninni aldrei neitt um það að segja hvernig sú þjónusta er eða hvernig hún er veitt vegna þess að þeir kjósa ekki þá fulltrúa sem ákveða þjónustuna. Það er ekki mikið lýðræði í því í sjálfu sér.

Síðan ef við horfum aðeins lengra fram í tímann með stærðina er ég einn af þeim sem hafa talað fyrir því í gegnum tíðina að sveitarfélögin ættu, ef eitthvað væri, að taka, að sér fleiri og viðameiri verkefni. Eins og ég nefndi hafa þau nýlega tekið að sér málefni fatlaðs fólks. Ég hef alla tíð verið talsmaður þess að sveitarfélögin taki að sér málefni aldraðra. Framhaldsskólinn er að mínu mati augljóst verkefni fyrir sveitarfélög. En eins og hv. þingmenn hljóta að sjá er það lífsins ómögulegt fyrir mjög lítil sveitarfélög að taka að sér svoleiðis verkefni nema þá að við höldum áfram að belgja út fyrirbæri eins og jöfnunarsjóðinn eða látum enn stærri hluta af tekjum sveitarfélaga koma þaðan. Ég tala alla vega fyrir mitt leyti ekki fyrir því. Ég tel að sveitarfélögin eigi miklu fremur, eftir því sem þau geta, að sinna verkefnum sínum sjálf, skipuleggja þau sjálf þannig að tryggt sé að íbúarnir þar innan hafi raunverulegt ákvörðunarvald um hvernig þjónustan er veitt og hvaða þjónusta er veitt. Þetta skiptir í mínum huga verulegu máli.

Ég hef líka talað fyrir sameiningu stórra sveitarfélaga. Það muna kannski ekki margir þingmenn en ég held að ég muni rétt að það hafi verið árið 2012 sem bæjarstjórn Kópavogs samþykkti tillögu mína um að fara í sameiningarviðræður við sveitarfélögin sunnan Fossvogs, þ.e. Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Kópavogs, og þá reyndar Álftaness líka. Af þeim viðræðum varð hins vegar ekki vegna þess að sum þessara sveitarfélaga voru hreinlega ekki til í neinar viðræður. Ég hef svo sem talað fyrir þessu áður og tel að stærri og sterkari einingar séu miklu líklegri til að veita fjölbreytilega þjónustu og tryggja íbúunum að geta raunverulega komið að því hvernig hún er veitt.

Það eru fleiri þættir í þessari tillögu sem eru mjög mikilsverðir og auðvitað eru tíu mínútur allt of lítill tími til að ræða þá. Ég ætla því sérstaklega koma að fjármálum og skuldaviðmiðum sveitarfélaga. Í núgildandi lögum er miðað við 150%, að viðmiðið fyrir A-hluta verði þar, ef ég fer ekki rangt með. Nú er lagt til að það verði farið niður í 100% skuldaviðmið. Ég held að það geti verið ágætismarkmið í sjálfu sér en það þarf þá að vera nokkur sveigjanleiki í þessu viðmiði. Tíu ára aðlögunartími er áreiðanlega hæfilegur í því sambandi. En til að mynda þegar koma áföll eða kreppur er ég ansi hræddur um að það þurfi að vera einhvers konar svigrúm fyrir sveitarfélögin til að geta brugðist við, a.m.k. tímabundið, og farið yfir þessi mörk. Það sést til að mynda á mynd 2 í greinargerðinni að t.d. í kringum hrunið fara langflest sveitarfélögin yfir 100% og meðalskuldir þeirra á þeim tíma voru 146%, sem er umtalsvert. Það þarf að vera einhvers konar svigrúm til að bregðast við áföllum og kannski er rétt að hugsa það aðeins nánar.

Förum að starfsaðstæðum kjörinna fulltrúa. Þar er enn eitt málefni sem hefur verið mér hugleikið í gegnum tíðina. Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir kom inn á það hér áðan að þarna þyrfti virkilega að vanda til verka, einkum og sér í lagi þegar hugsað er til þess að það er alveg gríðarleg endurnýjun í sveitarstjórnum. Jafnvel í stærstu sveitarfélögunum hefur orðið mikil endurnýjun á tiltölulega stuttum tíma. Það getur verið jákvætt að það sé endurnýjun en þegar endurnýjunin er miklu þyngri á kostnað annars kynsins, þ.e. kvenna, hlýtur það að hringja viðvörunarbjöllum: Það er kannski eitthvað að þarna, kannski gerum við þessi störf ekki þannig úr garði að allir geti stundað þau og allir geti sinnt þeim sem hafa áhuga á því. Það er mjög mikilvægt og ég held að þetta atriði þurfi að skoða sérstaklega.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt um er hér um þingsályktunartillögu að ræða þannig að þær lagabreytingar sem munu fylgja koma væntanlega einhvern tíma síðar og ég held raunar að það sé mjög gott. Það gefur þó hv. þingmönnum og samfélaginu öllu tækifæri til að velta þessu máli virkilega vel fyrir sér, taka upplýsta og meðvitaða ákvörðun um hvar menn vilja lenda sjónarmiðum sínum og við munum þá fá annað tækifæri til að skoða þau mál ofan í kjölinn þegar þær lagabreytingar koma fyrir þingið.