150. löggjafarþing — 16. fundur,  10. okt. 2019.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

86. mál
[14:35]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, útflutningur er alls ekki lausnin. Ég sagði það einmitt. Þegar kemur að hagkvæmni í tengslum við sorpförgun, eins og þetta heitir gjarnan, er hún yfirleitt mjög lítil. Það er yfirleitt þannig að við þurfum að borga með þessu. Það er niðurstaðan í heild. Það er verið að fara yfir þessi úrgangsmeðhöndlunarmál í ráðuneytinu og því er ég mjög fylgjandi. Ég hef meira að segja skrifað minnisblað til ráðuneytisins þar sem ég bið um að þetta sé gert með tvennu móti. Annars vegar að skoða lausn eins og ég var að tala fyrir, hina margþættu, sem gerir að verkum að ekki þarf að flytja út sorp — nema málma og spilliefni og annað slíkt. Hitt að skoða virkilega, eins og hér er verið að tala um, hátæknibrennslu og jafnvel gámaflutningaskip sem fara hringinn í kringum landið. Ég er fylgjandi því. En málið er að ef það á að fara að brenna um 100.000 tonnum af sorpi er ég á móti og það er út af því að þarna er um að ræða koltvísýringslosun. Það er um að ræða mörg þúsund tonn af hættulegri ösku sem þarf að flytja úr landi og þetta er sóun á hráefnum vegna þess að megnið af því sem við sendum frá okkur, tré, gler, matur, málmar o.s.frv. er allt saman hráefni þó að á endanum sé ekki hægt að búa til úr þessu eintómar vörur sem skila mikilli hagkvæmni. Niðurstaða mín er sú að skoða eigi báðar lausnir en mér finnst sú sem ekki gerir ráð fyrir stórri svokallaðra hátæknibrennslu — sem ég endurtek að er ekki fyllilega umhverfisvæn — síður koma til greina en hin.