150. löggjafarþing — 17. fundur,  14. okt. 2019.

kjör öryrkja.

[15:20]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem voru frekar rýr. Hún svaraði ekki spurningunni: Af hverju eiga öryrkjar að vera með 70.000 kr. minna á mánuði en láglaunafólk? Það breytir engu, allt sem hún taldi upp kemur láglaunafólkinu líka til góða. En þarna liggur munurinn, hann er 70.000 kr. og fer upp í 86.000 kr. Alltaf er sama hækjan notuð, þ.e. verðlagsvísitala neysluverðs. Í 69. gr. laga um almannatryggingar stendur skýrum stöfum að taka skuli mið af launaþróun. Það hefur aldrei verið gert, það hefur aldrei verið tekið mið af launaþróun. Tekið hefur verið mið af launaþróun þegar verið er að hækka laun þingmanna. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að taka mið af launaþróun sem hefur orðið í landinu og bæta þessum hópi upp kjaragliðnunina? Kjaragliðnun skýrir stóran hluta af þessum 70.000 kr. Og hvers vegna í ósköpunum er búið að aðskilja öryrkja og eldri borgara og atvinnulausa? Á sínum tíma voru þessir hópar á svipuðum kjörum, láglaunafólk, öryrkjar og eldri borgarar.