150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Markaðsstofa Norðurlands hélt fínan fund í gær um málefni Akureyrarflugvallar og millilandaflugs um flugvöllinn. Því miður komst ég ekki norður til að sitja fundinn vegna anna í þinginu. Hins vegar náði ég að fylgjast með streymi frá honum. Ég reikna með að hægt sé að sjá upptöku af honum á netinu og hvet alla til að athuga það. Öllum ætti að vera ljóst að þetta er stærsta málið á Norðurlandi og mjög er litið til þeirra tækifæra sem eru tengd því að skapa betri aðstæður fyrir dreifingu erlendra ferðamanna um allt land. Í þeirri umræðu hefur mitt mottó verið: Allt Ísland — allt árið.

Stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri skapar betri forsendur fyrir meira millilandaflugi um flugvöllinn þannig að allir flugfarþegar komist hratt og vel undir þak þegar þeir fara um flugvöllinn, hvort sem þeir eru að koma eða fara. Eins og komið hefur fram komast ekki allir á sama tíma undir þak.

Fyrir þremur vikum var Jafnvægisás ferðamála kynntur af ferðamálaráðherra. Í fréttatilkynningu frá ráðuneyti ferðamála vegna málsins kom fram að Jafnvægisásinn væri nýtt, viðamikið og mikilvægt stjórntæki sem segði til um það hvar ferðaþjónustan stæði gagnvart yfir 60 mælikvörðum sjálfbærrar nýtingar. Er þá horft til samfélagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta. Þetta mun vera í fyrsta sinn í heiminum sem slíkt verkefni er unnið á landsvísu. Þegar Jafnvægisás ferðamála var kynntur í lok september var m.a. tekið fram að flugstöðin á Akureyrarflugvelli væri ekki nægilega stór til að sinna hlutverki sínu. Hún var á rauðu á sama hátt og Reykjavíkurflugvöllur og flugstöðin þar var á rauðu og síðan mætti bæta við Keflavíkurflugvelli. Allir þessir innviðir voru á rauðu á Jafnvægisásnum.

Við eigum stór og vannýtt tækifæri í ferðaþjónustunni úti á landi og það er löngu kominn tími til að við nýtum þau. Þetta gengur allt of hægt. Við þurfum að rétta kúrsinn frá árinu 2011 þegar stór hluti fjárveitinga til flugvallakerfisins hvarf þegar varaflugvallagjaldið var lagt af og því breytt í þjónustugjöld sem runnu í framhaldinu til Keflavíkurflugvallar. Þar var sannarlega framinn slæmur verknaður sem hefur bitnað harkalega á uppbyggingu flugvalla landsins.