150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Eins og venja er koma menn víða við í umræðum um störf þingsins og mér finnst ástæða til að taka aðeins upp boltann þar sem hv. þm. Þorgrímur Sigmundsson skildi hann eftir áðan. Fyrst vil ég þakka honum fyrir að vekja athygli á þeim umsögnum sem borist hafa um frumvarp um urðunarskatt. Þingleg meðferð þess máls er að hefjast þannig að það skiptir máli hvaða sjónarmið koma fram í þeirri umræðu, hvaða sjónarmið berast nefndinni. Þar þarf að líta á tvennt eins og venja er, annars vegar hvort gjaldtakan, eins og hún er sett fram, sé til þess fallin að skila tilgangi sínum og hins vegar hvernig hún kemur síðan niður á gjaldendum. Það er eðlilegt að farið sé yfir þetta og það skoðað sem fram kemur af hálfu atvinnulífs, sveitarfélaga og annarra aðila sem um þetta fjalla. Gjaldtaka af því tagi þarf auðvitað að fara í gegnum umræðu og síu í þinginu eins og aðrar tillögur af slíku tagi. Ég get hins vegar ekki látið hjá líða að svara því sem hv. þingmaður hóf mál sitt á, hann veittist með ákveðnum hætti að Sjálfstæðisflokknum og fjármálaráðherra í þessu sambandi. Ég bið hann að fara yfir ferilinn í því sambandi, þ.e. nálgun Sjálfstæðisflokksins gagnvart skattheimtu, skattlagningu og skattbreytingum á undanförnum árum. Ég er alveg sannfærður um að hv. þingmaður, sem mér heyrist frekar vera á skattalækkunarlínunni, muni verða býsna ánægður þegar hann skoðar þá niðurstöðu og tekur það allt saman.