150. löggjafarþing — 19. fundur,  16. okt. 2019.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Mig langar að fjalla stuttlega um lífeyrissjóðakerfið og nýtingu á því almannafé sem þar liggur. Greiðslur í lífeyrissjóði hér á landi hafa löngum verið aðskildar frá skattkerfinu og runnið í aðra farvegi en víða erlendis. Hugmyndin er sú að sjóðirnir séu eign einstaklinga en staðreyndin er hins vegar sú að framkvæmdin er að mörgu leyti eins og um skattheimtu sé að ræða. Grundvallarmunurinn felst hins vegar í því hvernig sjóðirnir eru ávaxtaðir og spyrja má sig hvort vit sé í því að láta hluta af raunverulegri skattheimtu landsmanna í hendurnar á stórum hópi fólks sem spilar með peninga í fjármálakerfinu í stað þess að nýta þá til uppbyggingar. Kostnaðurinn af þessu spili er mikill og eru t.d. stjórnendur þessara sjóða sumir hverjir á mjög háum launum, svo að ekki sé dýpra tekið í árinni.

Uppbygging innviða virðist í auknum mæli vefjast fyrir mönnum. Lausnarorðið er að þeir greiði sem nota, en staðreyndin er sú að það eru miklu fleiri sem njóta. Uppbygging ljósleiðara vítt og breitt um landið tókst með ágætum en í raun þurfti að safna verulegum fjármunum meðal almennings og þeirra sem eru að taka inn ljósleiðara til að koma því í gegn. Og veggjöld eru lausnarorðið í dag alls staðar þar sem verulega á að taka til hendinni.

Þetta vafðist ekki fyrir fólki fyrir 50–100 árum þegar efni voru lítil. Það sætir furðu hvernig samfélaginu tókst á þeim tíma að koma upp vegakerfi, læknaþjónustu, lagningu síma og rafmagns, byggja upp flugvelli og hafnir og margt fleira mætti telja. Lykillinn að því var samt sá að þessar framkvæmdir hjálpuðu fólkinu í landinu að gera hlutina hagkvæmari, gera meira og gera betur o.s.frv. Það varð sem sagt aukin framleiðni eins og það heitir á góðu máli. Þetta borgaði sig sjálft og miklu betur en það.

Þannig er það með alla góða fjárfestingu í innviðum. Hún kemur allri þjóðinni til góða og það leiðir aftur að frasanum um að þeir borgi sem nota. Þeir sem nota innviði eru nefnilega við öll. Hvernig ætli ferðaþjónustan hefði þróast í Skaftafellssýslum ef þeir sem notuðu vegina þar hefðu þurft að borga þá? Hvernig gengi að flytja fisk til útflutnings með flugi ef ekki væri fyrir góða vegi og hverjir græða á því? Er það bílstjórinn eða fiskútflytjandi eða þjóðin öll? (Forseti hringir.)

Ég tel sjálfsagt að stokka upp hugmyndirnar um lífeyrissjóðakerfið og nota þá fjármuni miklu meira til að byggja upp innviði landsins (Forseti hringir.) því að þannig getum við borgað ellistyrkinn í framtíðinni.