150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

sveitarstjórnarlög.

49. mál
[14:28]
Horfa

Flm. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru dæmi um staði sem eru með takmarkaðan fjölda, eru með ákveðna fjöldatölu, ekki hlutfallstölu. Það er nokkuð sem mætti kannski skoða líka. Mig minnir að Hvíta húsið sé með milljón undirskriftir í 350 milljóna manna landi. Eða hvort þær séu jafnvel ekki nema 100.000? Ég er ekki með það fyrir framan mig og þori ekki alveg að segja til um það. En ég hef séð miklu lægri fyrstu þröskulda til að biðja um upplýsingar, til að biðja um fund og samtal og svo að lokum til að biðja um kosningu. Þessu ferli held ég að við þurfum bæði að koma betur á laggirnar, frumkvæðismöguleikunum, og að stunda það reglulega. Við lærum af því að stunda það, við lærum ekkert af því að gera ekki neitt. Það er einfaldlega þannig. Það er hægt að viðhafa alls konar varúðarorð og því um líkt, að hitt og þetta fari í kaldakol ef við breytum á þennan eða hinn veginn. En það sem gerist er að við lærum af því, aðlögum okkur. Gerum þetta betur næst. Við getum ekki gert betur næst ef við gerum ekki neitt. Það er held ég lykilatriði hvað þetta varðar, að búa til möguleikann á að gera samtalið betra, til að gera lýðræðið betra. Það er lykilatriði í því að ná betri árangri.