150. löggjafarþing — 21. fundur,  17. okt. 2019.

mat á umhverfisáhrifum.

90. mál
[15:26]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum, um vatnsorkuver, vindbú. Með mér á frumvarpinu er hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson. Í 1. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum er tilgreint hvaða framkvæmdir skuli háðar mati á umhverfisáhrifum. Í viðaukanum eru framkvæmdir flokkaðar í þrennt. Í flokki A eru þær framkvæmdir sem ávallt skuli háðar umhverfismati, í flokki B og flokki C eru framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skulu mati á umhverfisáhrifum eður ei.

Í frumvarpi þessu er lagt til að vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira verði færð úr flokki B í flokk A og verði því ávallt háð umhverfismati. Einnig er lagt til að stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu, vindbú svokölluð, með 2 MW uppsett rafafl eða meira, verði færðar úr flokki B í flokk A og verði einnig ávallt háðar umhverfismati.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

Tvö frumvörp þessa efnis voru lögð fram á 149. löggjafarþingi, 869. og 875. mál og var Flokkur fólksins með þau mál á síðasta löggjafarþingi en í staðinn fyrir að hafa þau hvort í sínu lagi ákváðum við að setja þau saman í eitt frumvarp.

Í gildandi lögum falla vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu, vindbú, með uppsett rafafl 2 MW eða meira í flokk B í 1. viðauka. Samkvæmt 1. mgr. 1. viðauka skal meta framkvæmdir sem falla undir B- og C-flokk í hverju tilfelli fyrir sig og af því leiðir að ekki er skylt að framkvæma mat á umhverfisáhrifum við slíkar framkvæmdir.

Framkvæmdir við gerð og rekstur fallvatnsvirkjana og vindbúa kunna að hafa í för með sér veigamikil áhrif á lífríki og náttúru. Óánægja ríkir með núverandi fyrirkomulag þar sem virkjanir undir 10 MW rafafli hafa hlotið framkvæmdaleyfi án þess að umhverfismat hafi farið fram. Þá geta vindmyllur með 2 MW aflgetu verið töluvert stórar og því verið áberandi í umhverfinu sem eitt og sér getur valdið ýmiss konar röskunum. Því er lagt til að öll vatnsorkuver með uppsett rafafl 200 kW eða meira og stöðvar sem nýta vindafl til raforkuframleiðslu, hin svokölluðu vindbú, með uppsett rafafl 2 MW eða meira falli undir flokk A í 1. viðauka og framkvæmdaleyfi verði samkvæmt því ávallt háð mati á umhverfisáhrifum.

Virðulegi forseti. Hvers vegna skyldi nú þetta ekki vera gert? Hér er t.d. ekki verið að tala um sumarhúsaeigendur og aðra sem vilja virkja bæjarlækinn eða vera með litlar smávirkjanir til eigin nota. Hér er ekki verið að tala um umhverfismat á þeim virkjunum, alls ekki. Hér er verið að tala um virkjanir sem í rauninni eru miklu stærri og sannarlega bendir flest til þess að þær séu alls ekki einungis til einkanota heldur til að reyna að selja inn á kerfið eða eitthvað annað. Það er algjörlega kristaltært í augum Flokks fólksins að náttúran á að fá að njóta vafans þegar við erum að tala um þessi mál.

Nú ætlar maður kannski að fara út í samsæriskenningarnar. Ég veit ekki hversu langt má ganga í þeim, virðulegi forseti. En hvað er það sem veldur því að haldið er verndarhendi yfir svona virkjunum, t.d. raforkuvirkjunum sem eru undir 10 MW? Hvað verður þess valdandi? Núna erum við að berjast fyrir því að halda t.d. okkar eigin Landsvirkjun en nú er þegar komið á daginn að Samtök iðnaðarins voru að gefa það út núna nýverið að það sé kannski tímabært að fara að stokka upp Landsvirkjun, ekki satt? Með 70% markaðshlutdeild og annað slíkt. Hvað er það sem veldur því að í framtíðarraforkustefnu, þar sem við erum búin að innleiða orkupakka eitt, tvö og þrjú og á leiðinni eru orkupakkar fjögur og fimm, skulum við ekki skilyrðislaust setja t.d. framleiðslustofnanir, vatnsorku- og vindbú, í umhverfismat þegar bersýnilega er verið að virkja til meiri nota en eigin afnota? Flokkur fólksins áttar sig ekki alveg á því. Við viljum að náttúran fái að njóta vafans. Við viljum ekki að menn séu með 9,99 MW raforkuvirkjun en ef hún er 10,01 MW verði hún að fara í umhverfismat. Einhvers staðar setjum við mörkin og við teljum þetta sanngjarnt og eðlilegt í ljósi umræðunnar, í ljósi framtíðarraforkustefnu. Þess vegna vænti ég þess að vel verði tekið í málið, sérstaklega af náttúruverndarsinnum og öðrum þeim sem tala fyrir náttúrunni.