150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

Landspítalinn.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Staðreyndin er sú að þegar við horfum á ríkisútgjöldin á Íslandi og umfang heilbrigðisþjónustunnar eru heilbrigðismálin um 25% af útgjöldunum í heild. Það er gríðarlega stór hluti og þar af er Landspítalinn – háskólasjúkrahús með verulegan skerf. Á þessu ári er fjárveiting til Landspítala samkvæmt fjárlögum 65,8 milljarðar og verður á næsta ári rétt um 69 milljarðar samkvæmt frumvarpinu fyrir 2020. Það er hækkun um 4,8% á milli ára. Rétt eins og aðrir forstjórar heilbrigðisstofnana og auðvitað forstjórar allra annarra ríkisstofnana þarf forstjóri Landspítala að glíma við það að halda stofnun sinni innan fjárlaga. Það er nokkuð sem við vitum og er veruleikinn hjá öllum sem um það fjalla.

Þegar upp koma áhyggjur af stöðu einstakra deilda eða starfsemi innan spítalans er það hins vegar verkefni embættis landlæknis að fara inn í þau mál og gera úttektir. Síðasta stóra úttektin af þessu tagi var hlutaúttekt embættis landlæknis vegna alvarlegrar stöðu á bráðamóttöku Landspítala frá því í desember 2018. Hún hefur verið endurtekin með eftirfylgniúttekt á síðustu vikum. Þar hafði embætti landlæknis bent á tiltekna þætti til úrbóta og ég vík betur að þeim í mínu síðara svari.