150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

Landspítalinn.

[15:28]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið en við vitum að 70% af þessum kostnaði er launakostnaður hjá ríkinu. Það segir sig sjálft að þó að þið skammtið fé þá vantar milljarð upp á launakostnað. Það á að spara um milljarð og um 2,5 milljarða í heild. Á sama tíma eru samningar lausir hjá hjúkrunarfræðingum. Það er hjúkrunarfræðingaskortur og það er verið að taka launaaukann sem var komið á til að halda í hjúkrunarfræðingana. Ég spyr bara: Hvernig í ósköpunum ætlar ráðherrann að halda í hjúkrunarfræðinga á sama tíma og allt á að skera niður? Það er eiginlega verið að auka álagið. Hefur hún ekki áhyggjur af því að það verði bara ófremdarástand? Það er þegar ófremdarástand núna og ef á að fara að skera svona mikið niður og á sama tíma á ekki að sjá til þess að hægt sé að standa undir launakostnaði, hvernig í ósköpunum ætlast hún þá til þess að spítalinn starfi?

(Forseti (SJS): Forseti minnir á að það á að beina máli til forseta en ekki ávarpa einstaka þingmenn eða ráðherra beint.)