150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Íslendingar vilja gjarnan vera í fremstu röð og í hópi þeirra þjóða sem skara fram úr á öllum sviðum og eru fyrirmynd öðrum þjóðum. Nú er komið í ljós að við erum fremst í heiminum í því að vera grá. Í síðustu viku lenti Ísland á hinum gráa lista samtakanna Financial Action Task Force, FATF, yfir ríki sem hafa ekki nægar varnir gegn peningaþvætti, eru ósamvinnuþýð. Þegar maður hlustar á talsmenn ríkisstjórnarinnar mætti ætla að Ísland hafi verið sett á gráan lista vegna þess að a) Bandaríkjamenn og Bretar vilja endilega varpa steinum úr glerhúsi, b) vegna einhvers sem gerðist í grárri forneskju og núverandi ríkisstjórn gat ekkert gert við eða c) að útlendingar skilja ekki sérstöðu Íslands. Þeir skilja ekki hversu lítinn mannafla Íslendingar þurfa til að fylgjast með peningaþvætti sem sé hvort sem er eiginlega ekki neitt sem orð sé á gerandi.

Það má vel vera að Bandaríkjamenn og Bretar búi í glerhöll og eigi sem minnst að gera athugasemdir við eftirlit annarra þjóða en hins vegar breytir það bara engu um stöðu og frammistöðu Íslendinga. Það breytir engu um athugasemdir FATF og það breytir engu um þann gríðarlega álitshnekki með tilheyrandi skömm og skaða sem þetta veldur okkur Íslendingum. Það má líka vel vera að tildrög þess að við erum þarna megi rekja til fyrri ára og eldri ríkisstjórna en það breytir ekki því að núverandi ríkisstjórn fékk varnaðarorð frá stofnuninni með ábendingum um úrbætur og núverandi ríkisstjórn brást seint og illa við þeim ábendingum, sennilega af hugmyndafræðilegum orsökum sem eru rótgrónar í þeim flokki (Forseti hringir.) sem stýrir fjármálum og dómsmálum þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum.