150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Herra forseti. Ég hef verið varamaður á þinginu í á aðra viku og hef reyndar verið það í tvígang áður. Það eru ákveðin forréttindi að fá að koma svona inn, kynnast þessu starfi, taka þátt, mögulega hafa smááhrif og fá ofurlaun í smástund. Það eru einnig ákveðin forréttindi að sleppa út aftur og hverfa í sitt meginlíf. Í þessari törn hef ég setið í fjárlaganefnd og hlustað á umsagnir ýmissa aðila sem komið hafa fyrir hana. Allir þurfa meira fjármagn og allir þurfa að fá sköttum aflétt. Allir hafa sögu að segja um það sem mætti betur fara og oft er það um eitthvað sem mætti fara miklu betur. Það liggur stundum við að manni fallist manni hendur og maður hugsar hvað sé hægt að gera. Það sem verra er er að margir hafa lengi vitað af vitleysunni í kerfinu, eða svo virðist vera, óþarfakostnaði, óþarfaflækjustigi og óþarfaóskilvirkni almennt, en ekkert gerist mánuðum eða jafnvel árum saman. Við horfum alltaf á sama hlutinn. Sumar vitleysur verða reglur, t.d. í hönnun framkvæmda. Prófið að heimsækja af handahófi einhvern stað þar sem opinberir aðilar eru að framkvæma og veljið af handahófi einhvern sem vinnur á staðnum og biðjið hann að segja ykkur eins og eina til tvær sögur af handahófi um skrýtnar og dýrar lausnir.

Ég er helst á því eftir þetta að það vanti ekki peninga heldur þurfum við að fara betur með þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er eins og það séu ekki endilega lög og reglur sem standi í veginum heldur verklag. Á þinginu og í ráðuneytunum reynir fólk að bregðast við vandamálum með nýjum lögum og nýjum eða breyttum reglum en þetta er langur armur sem þarf að stýra.

Mín niðurstaða er sú að stundum sé nóg að fá meira verksvit. Ég fékk því eina hugmynd sem ég ætla að gefa hæstv. fjármálaráðherra, sem því miður er ekki hér til að taka við henni — án endurgjalds — og það er að setja á laggirnar sérsveit í fjármálaráðuneytinu. Hún hefði afmörkuð atriði á sinni könnu, verkþætti, stærri eða smærri, og linnti hvorki látum né ynni sér hvíldar fyrr en viðkomandi mál væri leyst farsællega. (Forseti hringir.) Þetta væri ekki sveit lögfræðinga heldur fólks sem kynni til verka í viðkomandi málaflokki og gæti rýnt í hann og lagt til alvöruúrbætur.