150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Stundum verða sögur til næstum því óvart við það að setja saman nokkrar sviðsmyndir. Mig langar til að ræða hér eina slíka sögu. Fyrst vil ég nefna samantekt hv. þm. Þorsteins Víglundssonar, varaformanns Viðreisnar, um skattavelþóknun ríkisstjórnarinnar, en á þessu ári verða skatttekjur ríkissjóðs um 120 milljörðum kr. hærri en þær hefðu verið ef skattprósentur væru hinar sömu og þær voru á árunum fyrir hrun. Þrátt fyrir mikla gagnrýni Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á skattahækkanir vinstri stjórnarinnar 2009–2013 standa þessir flokkar nú ásamt Vinstri grænum að því að festa þessar sömu skattahækkanir í sessi.

Svo vil ég í öðru lagi nefna ástæður þess að ríkisstjórnin hefur ekki svigrúm til skattalækkana. Hún er sú að ríkisstjórnarflokkarnir þrír eru líka fullkomlega samstiga í taumlítilli útgjaldaþenslu sinni og nú, þegar vel er liðið á kjörtímabilið, er svo komið að svigrúm til skattalækkana fer minnkandi þar sem það hefur tekið að hægja á efnahagslífinu að nýju. Báknið virðist því komið til að vera, a.m.k. í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það var ekki hægt að lækka skattana þegar ytri aðstæður leyfðu vegna þess að það var búið að eyða þeim peningum, ef ekki einu sinni, þá tvisvar, í tíð þessarar útgjaldaglöðuðustu ríkisstjórnar Íslandssögunnar.

Klók kona sagði: Það skiptir ekki öllu hvað þú borgar heldur hvað þú færð fyrir peninginn. Þá er komið að þriðju sviðsmyndinni, ástandinu á bráðadeild Landspítalans sem hefur að sögn kunnugra oft verið slæmt en aldrei verra en núna. Og þá er mikið sagt, herra forseti. Þetta ástand er algjörlega óviðunandi, hvort sem er út frá sjónarhóli sjúklinga, aðstandenda, starfsmanna eða skattgreiðenda. Forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar geta alveg haldið áfram að standa hér í þingsal, þvo hendur sínar af ástandinu og vísa í lög um opinber fjármál og ábyrgð þingsins.

Lærdómurinn sem má draga af því að setja þessar þrjár sviðsmyndir saman í sögu er sá að taumlítil útgjaldaaukning getur ekki verið markmið í sjálfu sér. Þannig saga endar ekki vel og slík útgjaldaaukning má ekki ein og sér verða einhver mælikvarði á árangur. (Forseti hringir.) Þetta var sagan um getulitla ríkisstjórn.