150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Þann 18. október sl. gáfu landssamtökin Geðhjálp út yfirlýsingu í tilefni af fyrstu OPCAT-skýrslu umboðsmanns Alþingis vegna heimsóknar hans á lokaðar geðdeildir á Kleppi. Í yfirlýsingunni stendur, með leyfi forseta:

„Landssamtökin Geðhjálp vilja árétta að vart líður sá dagur á Íslandi að fólk með geðrænan vanda sé ekki frelsissvipt, svipt ákvörðunarrétti, nauðungarvistað og lyfjum sprautað í það með valdi og í framhaldinu síðan þvingað til að taka lyf. Samtökin hafa um árabil bent á að þessi mannréttindabrot séu framin í skjóli gildandi lögræðislaga þar sem túlkanir hafi verið þeim lögræðissvipta mjög í óhag.“

Í yfirlýsingunni hvetja þau stjórnvöld til að bregðast við án tafar í ljósi þeirra ábendinga sem koma fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis.

Ég leyfi mér að taka heils hugar undir þetta en bendi á að þetta hef ég talað um frá því að ég settist hér á þing, í minni jómfrúrræðu, að breyta þurfi lögræðislögunum. Ég vil gleðja landssamtökin Geðhjálp með því að það er nú þegar farin af stað vinna við endurskoðun þessara laga. Búið er að setja á fót samstarfsnefnd þingmanna sem fer með endurskoðun gildandi lögræðislaga en einnig annarra laga sem snúa að beitingu þvingana gagnvart fólki sem er frelsissvipt á þeim grunni að það kljáist við einhvers konar geðrænan vanda. Þetta er mannréttindabrot sem ég hef bent á síðan ég settist á þing og löngu kominn tími til að laga. En það er gleðiefni að segja frá því að víðtækur stuðningur var við það hér í þinginu að skipa þá samráðsnefnd sem ég lagði til síðasta vor. Sú vinna er komin af stað og við munum einnig funda með umboðsmanni Alþingis næstkomandi föstudag, og fleiri nefndir þingsins, til að bregðast sem best við þeim ábendingum sem umboðsmaður er með gagnvart þeim lagabreytingum eða bara yfir höfuð lagasetningu sem þörf er á til að tryggja sem best mannréttindi þessara hópa. Vinnan er farin af stað.

Ég þakka landssamtökunum Geðhjálp fyrir brýninguna og við munum að sjálfsögðu vera í góðu samráði við þau í þeirri vinnu sem fram undan er.