150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í þingviku Evrópuráðsþingsins í byrjun október spunnust margar gríðarlega mikilvægar umræður og skýrslur voru samþykktar sem síðan munu fara inn í löggjöf okkar hér á landi. Margar umræðurnar snerust um réttindi fólks á flótta og björgun mannslífa í Miðjarðarhafinu. Sú umræða sem mig langar til að vekja athygli þingheims á í dag er um skýrslu þingsins sem var samþykkt og fjallar um viðurkenningu á kynbundinni áreitni og kynbundnu ofbeldi í tengslum við kvensjúkdómalækningar og fæðingar. Það er fagnaðarefni að Evrópuþingið fjalli um kynjasjónarmið í heilbrigðisþjónustu því að eins og við þekkjum hér á landi í tengslum við hina mikilvægu vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands sem nefnist Áfallasaga kvenna er gríðarlega mikilvægt að kortleggja heilsu kvenna og áhrif áfalla á heilsu þeirra, auka þekkingu, taka út fyrir sviga heilsufar kvenna og hvernig upplifun þeirra er innan heilbrigðiskerfisins, hvort þær verði frekar veikar en karlar og þá hvers vegna, hvort konur fái verri þjónustu og hvort upplifun þeirra og meðferð innan kerfisins sé frábrugðin upplifun og meðferð karla.

Ný skýrsla Öryrkjabandalagsins sýnir líka að konur 50 ára og eldri eru stærstur hluti fjölgunar örorkulífeyrisþega hér á landi og eru konur á hverjum tíma 60% af örorkulífeyrisþegum. Þetta er staðreyndin. Á meðan athygli íslensks samfélags undanfarin ár hefur verið á unga karla sem hafa þurft að fara á örorku hefur lítil sem engin athygli beinst að þeirri staðreynd að örorka er kynjabundið vandamál og að sagan um örorku er sagan um konur, eins og höfundur skýrslunnar staðhæfir réttilega. Í nýrri og góðri heilbrigðisstefnu er því miður lítið fjallað um kynjapólitíkina í heilbrigðispólitíkinni og meiri áherslu hefði mátt leggja á hana en ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra er afar góður liðsmaður í kynjapólitíkinni og hvet ég hana til dáða í þeim efnum á sínu sviði.

Aftur að skýrslu Evrópuráðsins um kynbundna áreitni og ofbeldi í tengslum við kvensjúkdómalækningar og fæðingar. (Forseti hringir.) Það er með ólíkindum að á sínum viðkvæmustu stundum í heilbrigðisþjónustunni þurfi konur að upplifa kvenfjandsamlegar athugasemdir og úrelt viðhorf til kynjanna í fæðingu barna sinna og (Forseti hringir.) jafnvel kynbundna áreitni í kvensjúkdómaskoðun. Þetta þurfum við í þessum sal að laga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)