150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er ekki hægt að skilja stjórnarsáttmálann öðruvísi. Hann var samþykktur af — hvað eigum við að segja? — helstu frammámönnum innan Sjálfstæðisflokksins. Ég man ekki hvort það eru 80 eða 200, held að það séu 200 innan Sjálfstæðisflokksins, sem þarf til að samþykkja stjórnarsáttmála. Hér segir að „svigrúm á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni og tryggja þannig“ o.s.frv. Þannig að það er verið að tala um að nota svigrúmið vegna eignatekna ríkissjóðs. Ef það svigrúm er nýtt eða sett að hluta til í þjóðarsjóð þrengist auðvitað um það sem er hægt að setja í önnur verkefni, m.a. samgöngur. Þannig að þetta skiptir máli hvað það varðar, sér í lagi í ljósi þess að nú er verið að horfa til þess hjá ríkisstjórninni, eða hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að leggja á einhverjum forsendum gjald á þá sem nota þau mannvirki sem eru nauðsynleg á suðvesturhorninu til þess að byggja upp öruggar samgöngur. Þetta verður því að taka í samhengi. Ef það á að setja eitthvað í þjóðarsjóðinn af eignatekjunum er verið að minnka það svigrúm sem er sagt í stjórnarsáttmálanum að sé til að fara í samgöngur. Það er þess vegna sem ég spyr.