150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:03]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég get bara sagt við þessu er að í þeim sama stjórnarsáttmála og talar um að eignatekjur nýtist til að byggja upp samgöngur er líka talað um þjóðarsjóð. Hugmyndin um þjóðarsjóð er eiginlega betur útfærð en sú fyrrnefnda, um að nýta eignatekjur til að standa undir samgöngumannvirkjum. En nú er það auðvitað þannig að ég tók þátt í því að setja saman þennan stjórnarsáttmála með formönnum hinna flokkanna og það sem þarna liggur að baki er ekki síst það sem snýr að fjármálafyrirtækjunum. Ég hef talað fyrir því að við losum um eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum, m.a. til þess að fara í innviðauppbyggingu. Ég trúi ekki öðru en að það sé góð samstaða um það í þinginu, þó að við þurfum að ganga úr skugga um að við séum með góða áætlun í því efni sem kallist á við ytri aðstæður sem þurfa að vera góðar til þess að við náum að hrinda því verkefni í framkvæmd.