150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:10]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt fram. Það vekur hjá mér spurningar vegna þess að á sama tíma höfum við aldrei fengið meiri tekjur í ríkissjóð. Ef ég heyrði rétt í dag eru það 120 milljarðar sem eiga að koma á nokkrum árum, sem er aukning. Það virðist vera alveg sama hversu mikil aukning verður í tekjum ríkissjóðs, einhvern veginn er skiptingin alltaf röng. Það er alltaf sama vandamálið með heilbrigðiskerfið og ekki virðist einu sinni hægt að setja rétta launaupphæð inn í heilbrigðiskerfið heldur virðist sjúkrahúsið verða að skera niður, það á ekki einu sinni fyrir launakostnaði, en 70% af framlögum til sjúkrahússins fara í þann kostnað. Það er undarlegt að við skulum alltaf vera að þenja kerfið út, og það hringja engar viðvörunarbjöllur. Á sama tíma erum við að tala um þjóðarsjóð.

Ef maður horfir aftur til hrunsins getum við bæði horft á hvað skeði í gegnum Seðlabankann, þá peninga sem hurfu þaðan, og við getum líka horft á lífeyrissjóðina. Við getum horft á allt það sem glataðist, bæði skatttekjur sem töpuðust og eignir í lífeyrissjóðunum. Þetta á að vera okkur ákveðin viðvörun um að ef við ætlum að fara að stofna sjóð þurfum við að vanda rosalega til verka. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að við höfum ekki gert það og séum ekki á þeim stað að við munum vanda til verka í þessu samhengi. Ef við horfum hins vegar bara á lífeyrissjóðakerfið í heild sinni er það komið yfir 5.000 milljarða, sem er auðvitað rosalegt. Það var eiginlega komið á það stig hér innan lands að lífeyrissjóðirnir voru bara að kaupa í sjálfum sér og selja hver öðrum eignir. Inni í þessu kerfi eru núna um 2.000 milljarðar í skatttekjum ef við förum að reikna út. Þetta er verið að gambla með á markaði. Við höfum ekki hugmynd um hvort þetta muni einhvern tímann skila sér algjörlega til baka. Það virðist vera lögmálið að hrun verði aftur og við heyrðum líka hversu gífurlegur kostnaður er við rekstur þessara sjóða. Við erum með á þriðja tug lífeyrissjóða og eyðum í kringum 20 milljörðum í rekstrarkostnað sem sýnir að við erum alltaf að gera eitthvað rangt í þessu samhengi.

Það er talað um að við eigum að nota þessa sjóði fyrir stór áföll. Hvað eru stór áföll? Ég tel það vera stór áföll þegar fólk á ekki fyrir mat. Ég tel það stór áföll þegar hætta er á því að vegna fjárskorts gætu orðið dauðsföll á sjúkrahúsum landsins. Í dag erum við með kerfi sem riðar og við virðumst vera tilbúin til að ræða allt annað en það hvernig við ætlum að redda þessu kerfi. Jú, búum til þjóðarsjóð. Við verðum líka að muna að við erum að tala um, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, um veggjöld, að leggja á gjöld. Við erum að setja milljarða í vegaframkvæmdir og við ætlum jafnvel að tví- eða þrískatta bifreiðaeigendur og á sama tíma tölum við um þjóðarsjóð. Ég segi fyrir mitt leyti að á meðan kerfið er eins og það er eigum við ekkert að vera að safna peningum í sjóð. Við eigum að nota peningana, ef við höfum þá, helst í heilbrigðiskerfið, byrja á því, og svo til að bæta kjör öryrkja og eldri borgara. Einhverra hluta vegna teljum við sjálfsagt að þeir lifi á 70.000–80.000 kr. minna en lágmarkslaun í landinu eru. Einhvern veginn hefur ríkisstjórn eftir ríkisstjórn reiknað það út að það sé bara hinn eðlilegasti hlutur. En það er enginn að reyna að finna út hvernig í ósköpunum er hægt að sjá til þess að þetta sé ekki svona. Við vitum að ef við erum með lágmarkslaun í landinu á enginn að þurfa að lifa undir þeirri tölu. En einhvern veginn tekst okkur að horfa fram hjá því og einbeita okkur að þjóðarsjóði.

Ég segi fyrir mitt leyti að slíkur sjóður ætti ekki að vera á dagskrá fyrr en búið er að ná tökum á fjármálum ríkisins. Það segir sig sjálft að kerfið er að þenjast út og tugir milljarða fara í eftirlitsstofnanir. Á stuttum tíma hefur eftirlitskerfið tvöfaldast, mannafli farið úr 200 í 600–700 á tíu árum. Kerfið er að þenjast út. Þarna er ekkert líf undir en samt virðist alltaf vera til nóg af peningum í þetta. Ég hef áður bent á þessa stórfurðulegu fjölmiðlanefnd, hvernig hún getur á tveimur árum farið úr 58 milljónum í 500 milljónir. Það sýnir hvers lags bull er í gangi í þessu kerfi hjá okkur. Á meðan ríkisstjórnin er með allt niður um sig, liggur mér við að segja, í þessu samhengi eigum við ekki að horfa á þjóðarsjóð. Þetta eru peningar sem við eigum að nýta og það er þörf á því að nýta þá nú þegar. Það er ótrúlegt að hugsa til þess að þarna úti er fólk, sem vegna furðulegra reglna um búsetuskerðingar á kannski að lifa á 70.000–80.000 kr. og þarf að fara til sveitarfélagsins til að geta tórað en fær þar neitun vegna þess að makinn er kannski á lágmarkslaunum og það er vonlaust að framfleyta sér. Ef um einstakling er að ræða getur hann fengið eitthvað smávegis en hann þarf að fara betlileið til að lifa. Á meðan þjóðfélagið er á þessu stigi ber okkur skylda til að koma svona hlutum í lag. Svo skulum við tala um þjóðarsjóð. Þá væri í fínu lagi að setja peningana í þjóðarsjóð. En fyrst og fremst: Látum kerfið virka þannig að hér sé gott að lifa fyrir alla en ekki bara einhverja útvalda.