150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[16:59]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér þjóðarsjóð og ég vil þakka hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni fyrir ræðu hans og innlegg. Hv. þingmaður kom inn á það hér, eins og komið hefur fram í umræðunni, að við erum að fá þetta mál inn í annað sinn og mér sýnist margt til bóta frá því að það var lagt fram síðast og ekki síst vegna þess að tekið er tillit til þeirrar vinnu sem fram fór í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, ég get tekið undir það.

Áður en ég ber fram spurninguna vil ég segja að almennt er ég nokkuð sáttur við málið eins og það er núna og þau markmið sem þar eru sett fram, ekki síst um að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs. Við getum öll verið sammála um að það er gott markmið og ég kann afar vel við það orðalag sem hv. þingmaður setti fram, hann nefndi þetta sem akkeri og talaði um að byggja upp styrk til að mæta áföllum.

Hv. þingmaður kom hér inn á hámark, ef vel safnast í sjóðinn. Í 5. gr. um framlög og ráðstöfun er talað um framlög og ávöxtun sjóðsins og hv. þingmaður ræddi hvort tveggja í senn útvíkkun og hámark. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að útskýra það betur, hann er þá væntanlega að tala um að fjármunir komi inn í sjóðinn annars staðar frá en einungis af nýtingu orkuauðlinda. Og hvað varðar hámarkið spyr ég hvort 14. gr., reglugerðarheimildin, geti ekki nýst þegar við erum að ræða einhvers konar hámarksfjárhæð í sjóðinn.