150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:01]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni spurninguna. Með útvíkkun í 5. gr. er ég fyrst og síðast að velta því fyrir mér hvort ástæða sé til, fremur en að hafa reglugerðarheimild í 14. gr., að hafa það hreinlega inn í 5. gr. að framlög gætu komið víðar að. Eins og hv. þingmanni er kunnugt hafa svo sem fleiri þingmenn rætt það. Jú, það kynni að gerast með því að sjóðurinn yrði fyrr burðugur og fyrr stór sem aftur myndi auka á þrýsting á það hvort frekar ætti að hafa á honum einhvers konar hámark, það er alveg mögulegt. Ég skil reglugerðarheimildina í 14. gr. ekki þannig að á grundvelli hennar sé beinlínis hægt að ákveða nýja tekjustofna, ekki í stóra samhenginu, ekki að öðru leyti en því sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni hér áðan, til að mynda að á einhverjum tímapunkti væri sala á ríkiseignum eða eitthvað slíkt og þá væri hægt að ákveða að leggja það í sjóðinn. Ég skildi hæstv. ráðherra ekki þannig að þar væri átt við að hæstv. ráðherra gæti farið að ákveða með reglugerð að komnir væru nýir almennir tekjustofnar fyrir sjóðinn.