150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:16]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að margir þjóðarauðssjóðir sem starfræktir eru annars staðar eru annars eðlis en sá sem hér er til umfjöllunar. Hins vegar eru til dæmi sem ég nefndi í framsögu minni um sjóði sem líkjast því sem við erum að tala um, sem eru sjóðir ætlaðar til þess að létta undir með ríkjum þegar stærri áföll verða. Og auðvitað er það rétt hjá hv. þingmanni að það er fórnarkostnaður af því að koma á fót svona sjóði og menn eiga að velta fyrir sér valkostunum. Í framsöguræðu minni og í greinargerð með frumvarpinu er það einmitt meginefnið. Í aðdraganda frumvarpsins var unnin vinna til þess að velta upp þeim valkostum. Hér er lagt upp með það að við getum á sama tíma fengist við ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar í B-deildinni með áframhaldandi innborgunum eins og áætlað er og komið á fót þjóðarsjóði. En þjóðarsjóðurinn er þá fórnarkostnaður ef menn eru bara að horfa á þessi tvö verkefni í þeim skilningi að það væri mögulegt að greiða hraðar inn á B-deildina.

Þá er það alltaf spurning hvers virði það er fyrir eina þjóð að geta notið góðs af slíkum varasjóði. Það er auðvitað ótæmandi umræðuefni og byggir á mikilli óvissu um framtíðina, hvað geti komið upp á. Meiri háttar eldgos, umhverfisslys og aðrir slíkir þættir eru ekki fyrirséðir atburðir en það er alveg öruggt að við getum verið sammála um að þá væri gott að hafa lagt til hliðar til að mæta áföllum þannig að við hefðum nýtt góð ár og góða stöðu til að leggja til hliðar til að fást við það þegar það kemur upp. Það er í raun og veru megininntak þessa máls. (Forseti hringir.) Það er ekki verið að herma eftir öðrum sjóðum, eins og stundum hefur verið haldið fram í umræðu um þetta mál, sem eru hugsaðir í allt öðrum tilgangi.