150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:25]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Þetta hefur verið mjög áheyrileg umræða hér í dag, það sem ég hef heyrt af henni. Í sínum innsta kjarna snýst málið kannski um ráðstöfun á fé sem má telja nokkuð fyrirsjáanlegt að komi til með að falla ríkissjóði í skaut sem arðgreiðslur og þá ekki síst frá Landsvirkjun. Spurningin er hvaða hætti er heppilegast og haganlegast og kannski arðsamast, herra forseti, að ráðstafa því fé. Ég verð að viðurkenna að ég hef, þrátt fyrir ítarlega og vandaða framsögu hæstv. ráðherra, ekki sannfærst um nauðsyn þess að setja á laggirnar þjóðarsjóð, nýja ríkisstofnun sem á að reka sjóð með því ágæta nafni við hliðina á ríkissjóði. Ég viðurkenni að markmiðin eru ekki fyllilega ljós að því leyti að þau áföll sem sjóðnum er ætlað að bregðast við eru ekki mjög ítarlega og nákvæmlega skilgreind. Þá verð ég sömuleiðis að viðurkenna að mér er ekki með öllu ljóst af hverju Seðlabanka Íslands er ekki falin umsjá þessa sjóðs. Ég minni á að Seðlabankinn býr að langri reynslu af fjármálastarfsemi á alþjóðlegum vettvangi vegna starfa sinna að lánamálum ríkissjóðs og sömuleiðis við ávöxtun gjaldeyrisforðans. Seðlabankinn hefur afar mikilvæg sambönd í hinum alþjóðlega fjármálaheimi, er þar vel kynntur, eins og ríkissjóður er reyndar líka. Ég leyfi mér að segja að í því efni tala ég af eigin reynslu úr einu af mínum fyrri lífum.

Herra forseti. Ráðherra rakti sjálfur í ræðu sinni ýmsan varnarviðbúnað sem þegar væri fyrir hendi í landinu til að mæta margvíslegum áföllum. Það nægir að nefna gjaldeyrisforðann þótt hlutverk hans sé út af fyrir sig afmarkað, eins og ráðherra rakti reyndar í ræðu sinni. Það má jafnvel taka undir það með ráðherra að hann sé hugsanlega orðinn einu númeri of stór. En það er önnur umræða sem ætti kannski að taka við hentugt tækifæri. Ástæða er til að nefna Náttúruhamfaratryggingar Íslands, áður Viðlagasjóð. Hér er starfandi Tryggingarsjóður innstæðueigenda sem hugsanlega hefur vaxið um of. Það er annað atriði sem vert væri að skoða vandlega. Á vettvangi Evrópusambandsins mun fyrirhugaður skilasjóður sem ætlað er að greiða fyrir slitameðferð fallinna fjármálafyrirtækja. Má vænta þess að það fyrirkomulag verði sömuleiðis tekið upp hér á landi.

Herra forseti. Orkuauðlindir okkar eru skilgreindar sem endurnýjanlegar og svo sannarlega eru þær það, rigningin sér fyrir því, öndvert við olíu- og gaslindir, svo að dæmi séu tekin. Við þurfum því ekki af sanngirni við komandi kynslóðir að binda arð af orkuauðlindunum í sérstökum sjóði, það eru ekki bara tilteknar kynslóðir sem þar njóta, þessar orkuauðlindir munu verða í landinu um ókomna tíð. Það er ástæða til að nefna að hér starfaði um árabil Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins með það að markmiði að vega upp á móti sveiflum í verði útflutningsafurða Íslendinga, fiskafurða. Sá sjóður var lagður niður undir lok síðustu aldar. Við búum nú við mun fjölþættara atvinnulíf og fleiri stoðir eru undir verðmætasköpun og tekjuöflun en þá var, aðstæður allar breyttar í atvinnu- og efnahagslífi okkar. Það er mikill styrkur af lífeyriskerfi landsmanna þó að það hafi sínar brotalamir eins og hefur verið minnt á, en lífeyriskerfið mun þegar fram líða stundir standa undir greiðslum viðunandi lífeyris til þorra landsmanna.

Ég tek undir það sem ráðherra sagði í framsöguræðu sinni, að hlutverk lífeyrissjóðanna er bundið við þann tilgang og fé verður ekki sótt í þá til að mæta ófyrirséðum áföllum, en af þeim er engu að síður, eins og ég gat um, mikill styrkur fyrir okkur í fjárhagslegu tilliti. Það sem við köllum innviði í ræðum heitir í venjulegu máli vegir, brýr, hafnir, flugvellir o.s.frv. Þetta hefur verið látið dankast, fyrst af nauðsyn vegna hrunsins en of lengi eftir það. Ég tel öll rök standa til þess að arður af orkuauðlindunum fari í framkvæmdir til að styrkja innviðina hér á landi, styrkja innviði íslensks samfélags — og það þarf að gera núna en ekki seinna. Þá er ég að tala um samgöngumannvirki, heilbrigðisstofnanir, skóla og hjúkrunarheimili til að mæta öldrun þjóðarinnar sem er þekkt fyrirbæri og fyrirséð og liggur fyrir í gögnum um lýðfræðilega þætti þjóðarinnar. Hjúkrunarheimilin eru að vísu nefnd í þessu frumvarpi að sönnu en ekki þarf þær tilfæringar sem fylgja stofnun þjóðarsjóðs til að ráðast í svo sjálfsagt verkefni sem hjúkrunarheimili fyrir aldraða eru.

Eins og fram hefur komið er skuldastaða ríkissjóðs hófleg, hún er með betra móti, að ekki sé sagt með besta móti. Ríkissjóður er ekki mjög skuldsettur, fjarri því. En það er að sönnu rétt að það eru náttúrlega óleyst vandamál vegna B-deildar LSR. Ráðherra gat að vísu um sérstakar inngreiðslur þannig að við mættum auk alls þessa hafa það hugfast að einhverjir tækifærissinnar sem gætu ratað hér á valdastóla gætu sem best fundið það upp hjá sér að verja eignum þjóðarsjóðs til vinsældakaupa frekar en að gera það sem ég vil leyfa mér að leggja þunga áherslu á, þ.e. að nota féð með skynsamlegum hætti, fé sem er arðurinn af orkuauðlindunum, til brýnnar uppbyggingar á innviðum íslensks samfélags. Ég ætla að leyfa mér að segja það hér að það er ekki augljóst að fyrir hendi séu vænlegri fjárfestingarkostir ef hugsað er um arð af slíkum framkvæmdum.

Hér hefur verið getið um ábendingu Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, OECD, um nauðsyn á auknum opinberum fjárfestingum. Til að mæta þeirri gagnlegu ábendingu er notkun á arðinum af orkuauðlindunum augljós kostur. Minnst var á hugsanlegt söluandvirði banka en það er ekki í hendi og allt miklu óljósara um það fé, eins og til að mynda hvenær það félli til, en það hvenær vænta megi arðgreiðslu úr Landsvirkjun sem reyndar hefur verið boðuð af fyrirtækinu sjálfu.

Herra forseti. Samandregið vil ég segja að varðandi það viðfangsefni sem hér er við að eiga, þ.e. að fjalla með skynsamlegum og skipulegum hætti um það hvernig þessum fyrirsjáanlega arði af orkuauðlindinni verði varið, sýnist mér það blasa við að verja eigi honum til uppbyggingar innviða eins og ég hef rakið og lagt áherslu á. Ég tel að stofnun þjóðarsjóðs sé ekki rétta svarið við þeim aðstæðum sem nú blasa við og við er að eiga.