150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[17:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir ágæta umræðu. Ég hef ítrekað tekið fram í dag að því fylgir fórnarkostnaður að koma á fót þjóðarsjóði. Það eru þá einkum þættir eins og hér hafa verið nefndir sem lúta að fjármögnun verkefna. Það þarf auðvitað að horfa á samspil við opinberu fjármálin og spyrja hvort það séu þau hagrænu áhrif af slíkum framkvæmdum sem rúmast innan markmiða okkar samkvæmt fjármálareglu til að fara í slíkar framkvæmdir. En það er alveg rétt sem hér kemur fram að ef menn kjósa að leggja laust fé inn í þjóðarsjóð eru menn ekki að nota þá fjármuni annars staðar á sama tíma. Sumir segja og það hefur komið hér fram í umræðunni að menn gætu ráðstafað þessu lausafé til uppgreiðslu á lífeyrisskuldbindingum. Aðrir vilja nota peninga til að fjármagna ríkissjóð vegna fjárfestingarverkefna. Þetta eru allt skiljanleg og mikilvæg verkefni en ég tel að þau séu öll í góðum farvegi.

Það er líka mikilvægt að ræða samhliða þessu hina stóru mynd, þ.e. hvernig horfi í íslenskum ríkisfjármálum til lengri tíma varðandi lífeyrisskuldbindingar, varðandi þörfina fyrir fjárfestingar. Einnig hvað sé skynsamlegt að gera á efnahagsreikningi ríkisins varðandi t.d. sölu eigna. Í þessari ríkisstjórn hefur verið lagt upp með að við leitum leiða til að draga úr eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum en þar er um að ræða fjárhæðir sem eru samanlagt langt umfram það sem er verið að ræða í tengslum við þennan sjóð, eða kannski er nákvæmara að segja a.m.k. um það bil, þ.e. fjárhæð sem er u.þ.b. af sömu stærðargráðu og verður þegar sjóðurinn er að fullu fjármagnaður. Þess vegna er alveg nauðsynlegt að við komumst áfram í umræðu um réttar ráðstafanir hvað þær eignir snertir. Í mínum huga er alveg augljóst að við eigum að leita leiða til þess að draga úr eignarhaldi ríkisins á Íslandsbanka. Við tókum sérstaka umræðu um það í vikunni. Það hefur engin mótuð tillaga verið sett saman til að ræða við þingið, enda kemur auðvitað ýmislegt til greina í því efni. En með slíkri sölu gætum við einmitt ráðist í margar af þeim aðgerðum sem menn hafa tekið til umræðu í tengslum við þetta mál og nefnt sem mikilvægar. Við gætum t.d. greitt háar fjárhæðir inn á lífeyrisskuldbindingar. Við gætum átt laust fé til ráðstöfunar til að fjármagna gríðarlega mikla fjárfestingu í vegakerfinu, í höfnum, annars staðar í samgöngukerfinu, í flugvöllum. Við gætum þannig líka verið með laust fé til að halda áfram uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, hvort sem væri Landspítalinn eða hjúkrunarheimili. Við getum líka haldið áfram átaki vegna nýsköpunar o.s.frv. Þetta eru bara svo stórar fjárhæðir og það er þess vegna svo ofboðslega stór ákvörðun að geyma þetta mikið fé í einu fyrirtæki, ef ég nefni Íslandsbanka sérstaklega í því sambandi.

Ég fagna því að menn vilji ræða um þessi mál í hinu stóra samhengi hlutanna og óska eftir því að geta átt gott samstarf við nefndina í hennar vinnu. Ég þakka fyrir málefnalega umræðu í dag.