150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[17:20]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er á þeirri skoðun að við ættum að ganga enn lengra í evrópsku samstarfi. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt að við a.m.k. beitum okkur í því samstarfi sem við erum í núna og hefur skilað okkur mikilli hagsæld. Ég held að Ísland hafi rödd. Á Ísland er hlustað. Ég held að það yrði samt fyrst og fremst tekið eftir því ef við myndum leiða einhverjar aðgerðir og grípa til róttækra aðgerða. Mér finnst líka skipta máli núna á þessum tímapunkti að við höllum okkur að samstarfi við þær þjóðir sem hafa raunverulega viðurkennt þær breytingar sem eru að eiga sér stað á jörðinni og vinnum nánar með þeim í staðinn fyrir að beina sjónum sínum að tvíhliða samningum við ríki sem jafnvel hafa leiðtoga sem hafna breytingunum. Í fyrsta lagi er náttúrlega fjölþjóðlegt samstarf miklu betra og tryggir okkur betri réttindi á öllum stigum en tvíhliða samningur en þetta skiptir líka máli.

Ég bendi líka á að núna þegar við tókum við formennsku í Norðurskautsráðinu var í fyrsta skipti í langan tíma ekki hægt að gera sameiginlega yfirlýsingu vegna þess að forseti Bandaríkjanna vildi ekki hafa orðin „loftslagsbreytingar“ eða „hamfarahlýnun“ í textanum. Ég er alveg viss um að frændur okkar og vinir í nágrannalöndunum og í Evrópu munu hlusta á okkur. Við getum haft rödd þar, miklu sterkari en við höfum. En til þess þurfum við að gera meira en að tala. Til þess þurfum við líka að láta verkin tala og ekki ganga skemur en alþjóðastofnanir eiginlega hvetja okkur til.