150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

CBD í almennri sölu.

285. mál
[16:38]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann í ljósi þess að lyfjalög eru gríðarlega íþyngjandi, skiljanlega og réttilega, og krefjast margvíslegra leyfa frá hinu opinbera og eru íþyngjandi framleiðendum, innflytjendum, smásölum og ekki síst neytendum. Ég velti fyrir mér hver rökin eru fyrir því að skilgreina CBD sem lyf frekar en t.d. fæðubótarefni. Það eru til ritrýndar fræðigreinar sem hafa sýnt fram á að neikvæð áhrif CBD á líkamann eru nánast engin og líkaminn virðist samkvæmt rannsóknum vinna vel úr CBD með fáum og smávægilegum aukaverkunum sem flest tengjast stórum skömmtum. Sama má segja um fjölmörg vítamín en engum dettur í hug að skilgreina lýsi sem lyf eða D-vítamín.

Ég spyr því hv. þingmann: Hvers vegna, ef efnið er hættulaust eða nánast hættulaust, er þörf á því að setja svo íþyngjandi skilyrði um að það verði flokkað sem lyf? Af hverju má CBD ekki bara vera aðgengilegt ef fólk er að kalla eftir því? Það eru ofboðslega margir í samfélaginu sem nota efnið í dag — það er á svörtum markaði og flutt inn — og það hjálpar gríðarlega mörgum.