150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

CBD í almennri sölu.

285. mál
[16:41]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Við hv. þingmaður sitjum saman í velferðarnefnd og eigum því væntanlega eftir að taka þessa umræðu áfram þar, sem er bara mjög gott og ég ber virðingu fyrir því að fólk vilji fara varfærnislega af stað með nýja hluti. Ég hlakka til að fá umsagnir og sérfræðinga til nefndarinnar til að víkka út þetta samtal og fræða okkur betur um CBD, væntanlega sem lyf eða fæðubótarefni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að öðru. Þetta mál kemur líka inn á það hvort löglegt sé að rækta iðnaðarhamp á Íslandi þar sem kannabisplantan er öll undir núna í lögum um ávana- og fíkniefni. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður sé mér sammála um mikilvægi þess eða hvort hann telji að þörf sé á því að taka CBD út fyrir svigann þannig að það falli ekki undir lög um ávana- og fíkniefni. Með því yrði laga- og reglugerðarumhverfi á Íslandi varðandi iðnaðarhamp tekið af gráa svæðinu og það gert skýrt að leyfilegt væri að rækta iðnaðarhamp sem væri þá með litlu, skilgreindu magni af THC. Þetta myndi gera okkur fært að rækta og framleiða vörur úr þeim hampi á Íslandi sem er mjög umhverfisvæn leið að fara, t.d. til að búa til textíl eða steypu eða pappír eða hvað sem það nú er.