150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[15:46]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú misskilningur hjá hæstv. ráðherra að ég óttist framtíðina, ég geri það alls ekki. En ég óttast hins vegar íslenska efnahagsstjórn og ég óttast hæfileika íslenskra stjórnvalda til að stýra efnahagslífinu farsællega. Það er bara raunsæi sem er byggð á reynslu manns sem orðinn er sextugur. Ég vil tryggja ungt fólk sem best gagnvart slíkum skakkaföllum sem af þeirri efnahagsstjórn kunna að hljótast. Ég tel að raunverulegt þak á vöxtunum upp á, segjum 1%, muni best til þess fallið að tryggja það. Það er ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að það sé vaxtaþak samkvæmt frumvarpinu. Það eru bara áform um að skipuð skuli nefnd. Nú er ég orðinn, eins og áður kom fram, sextugur og við sem erum orðin sextug vitum alveg hvað það merkir í pólitík þegar sagt er að skipuð skuli nefnd. Það merkir ekki neitt. Það merkir í rauninni bara: Já, við vitum af þessu vandamáli og við ætlum að ýta því aðeins á undan okkur og láta það í nefnd. Þetta er meira að segja sérstakt hugtak í íslenskri umræðu, að setja málið í nefnd, sem er annað orð yfir að gera ekki neitt.