150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[16:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það má segja að í heildina séð gleðjist ég afskaplega mikið yfir þessu frumvarpi og því framtaki hæstv. menntamálaráðherra að reyna að koma til móts við þarfir stúdentanna okkar. Það hefur ekki farið leynt að gríðarlega hefur dregið úr lánsumsóknum. Unga fólkið okkar á erfitt með að komast úr foreldrahúsum. Þeim er boðið upp á ansi erfiða umgjörð hvað lýtur að búsetuúrræðum fyrir þau nema helst þeim úrræðum sem Stúdentaráð hefur sjálft boðið upp á á stúdentagörðum. Samt sem áður er jafnvel þar erfitt fyrir marga að leigja þannig að þeir eru frekar heima hjá ættingjum eða foreldrum. Í raun hefur staða Lánasjóðs íslenskra námsmanna sjaldan verið sterkari hvað það varðar, ég held að þeir séu búnir að safna núna um 15 milljörðum kr. Þau úrræði og þeir möguleikar sem ráðherra býður upp á núna, að reyna kannski að hvetja frekar unga fólkið okkar og draga það í nám og aðstoða, það er mjög jákvætt.

Hins vegar lít ég náttúrlega mjög vel á umsögn BHM, háskólamanna. Þar er margt sem kemur fram sem verður sannarlega að skoða ofan í kjölinn og þarf að skoða ofan í kjölinn og væntanlega mun ráðherra gera það. Ég treysti því. Mér stóð nú hálfgerður stuggur af því sem þeir benda á í 3. mgr. 20. gr. frumvarpsins sem segir að ef einstaklingur er orðinn 66 ára gamall og hefur ekki greitt upp námslánið sitt megi bara fá heimild til að gjaldfella það eins og það leggur sig. Það er ansi harkalegt, svo að ekki sé meira sagt. Margir 66 ára einstaklingar, sjálfsagt allt of margir, eru í þeirri stöðu að þeir hafa hreinlega ekki efni á því að láta gjaldfella á sig allt lánið.

Þegar við tölum um jöfnuð og jafnræði í þessu öllu kemur það líka fram að aðallega er verið að líta til unga fólksins, kannski eðli málsins samkvæmt, ég veit það ekki. Við sem eldri erum skiptum kannski ekki eins miklu máli og framtíðin. En það er líka margt annað sem ég vildi láta taka sérstaklega tillit til. Alls staðar í kerfinu okkar, hvort sem það lýtur að þessu góða frumvarpi á margan hátt eða mörgu öðru, er ákveðin mismunun. Það er gríðarleg stéttaskipting í þessu landi. Það er ekki flóknara en það. Við erum með stóran hóp fíkniefnaneytenda, við erum með einstaklinga sem eru t.d. að koma út úr meðferð, ungt fólk, kornungt fólk, með fullt af væntingum og bjartsýni og brosi, sem langar virkilega að takast á við tilveruna og jafnvel fara í nám. Það er í raun þyngra en tárum taki þegar maður þarf að horfast í augu við að það er nánast ekkert sem grípur þetta unga fólk þegar það kemur út í samfélagið, það er að mjög takmörkuðu leyti.

Ég vænti þess a.m.k. að núna þegar við fjöllum um frumvarpið, þingheimur allur, munum við leggjast yfir það og betrumbæta í nefndinni og annars staðar þannig að það gagnist jafnvel enn fleirum vegna þess að markmiðið er gott og viljinn er skýr. Auðvitað erum við að vinna að þessu saman og auðvitað getum við alltaf gert betur og ég hef fulla trú á því að það sé akkúrat það sem hæstv. menntamálaráðherra stefnir að með frumvarpinu.

Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég er þakklát fyrir frumvarpið. Við höfum sem sagt fengið það í fangið og ég vona sannarlega að við eigum eftir að vinna það þannig að við þurfum ekki að velkjast í vafa um að það sé fyrir alla, ekki bara suma.