150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit að hv. þingmaður brennur sérstaklega fyrir hagsmunum þeirra sem standa höllustum fæti í samfélaginu þannig að ég vænti þess að það sé ekki rétt skilið hjá mér að hún hafi efasemdir um það að neyslurými séu góð leið til að sýna þeim viðkvæma hópi mannúð. Ég hef bæði í framsögu minni og andsvörum við spurningum hv. þingmanna komið inn á það ítrekað að hér er ekki öllum spurningum svarað. Það verður töluvert verkefni fyrir hv. velferðarnefnd að ljúka málinu og m.a. í ljósi þeirra álitamála sem hafa komið upp varðandi það sem hefur verið kallað neysluskammtar og refsilaust rými o.s.frv. Einmitt af þeim sökum og vegna þess að í frumvarpinu er talað um reglugerðarheimild held ég að það sé ráð að jafnhliða meðferð málsins verði nefndinni kynnt drögin að reglugerðinni og þær leiðir sem þar eru kynntar til sögunnar til að leysa álitamálin. Ég vona svo sannarlega að hv. þm. Inga Sæland hafi ekki efasemdir um að fara þá leið.