150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[17:28]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að samflokkskona hv. þingmanns tryggi það að sveitarfélögin þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur af þessu og sömuleiðis að hæstv. fjármálaráðherra sem situr með hv. þingmanni í meiri hluta muni sjá til þess að þau þurfi ekki að hafa neinar áhyggjur. Ég veit svo sem ekki hvað ég ætti að segja um það. Ég hef afskaplega takmarkað vald sem þingmaður minni hluta til að tryggja að sveitarstjórnir landsins þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjármögnun. Alla vega tel ég meiri hlutann hafa töluvert meira vald til að tryggja það en þá sem hér stendur.

Mér fannst mjög gott að hv. þingmaður kom inn á mikilvægi þess að við hlustum hvert á annað. Ég tek innilega undir með honum og er algjörlega sammála hv. þingmanni. Ég vil bara að nota þetta tækifæri til að minnast á að í grunnstefnu Pírata er einmitt mjög skýrt tekið fram að við séum opin fyrir hugmyndum, sama hvaðan þær kunna að koma. Þetta var ein af höfuðástæðum þess að ég sá hag í því að ganga til liðs við Pírata vegna þess að mér fannst þetta svo mikilvæg hugmynd og mér fannst svo mikið vanta upp á hana í íslenskri pólitík. Ég hafði aldrei hugsað mér að taka þátt í stjórnmálum fyrr en fram kom stjórnmálaflokkur sem hafði það mjög skýrt í sinni stefnu að hann væri tilbúinn til að hlusta á hugmyndir, sama hvaðan þær kæmu, og væri opinn fyrir þeim, sama hver legði þær fram. Þetta fannst mér algjörlega vanta. Mér fannst frábært að geta gengið í stjórnmálaflokk sem hefði það í grunnstefnu sinni að standa að þessu og sömuleiðis að það megi skipta um skoðun út frá nýjum gögnum. Það fannst mér hugmyndafræðileg grundvallarbreyting í íslenskri pólitík. Á sínum tíma alla vega, 2015, þegar ég byrjaði. Mér finnst ekki allt hafa breyst eitthvað rosalega mikið síðan þá, það verður að segjast. Þannig að ég er bara mjög sammála hv. þingmanni. Við eigum hlusta á hvert annað og það er mjög ánægjulegt að við séum að gera það í þessu máli sem og öðrum góðum málum.