150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[18:46]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum mikið rætt um skaðaminnkun í þessari umræðu allri og þetta er að sjálfsögðu skaðaminnkunarúrræði sem við erum að ræða hér. Þá langaði mig að óska eftir skoðanaskiptum við hæstv. ráðherra um skaðaminnkun fyrir aðra vímuefnaneytendur en þá sem kannski eru komnir á þann stað að þurfa á neyslurýmum halda. Það er hægt að gefa sér að þótt einstaklingar eigi almennt ekki í vandræðum með notkun vímuefna — sem ótrúlegt en satt gildir bara um fullt af fólki sem notar vímuefni á Íslandi í dag — þá verða slys, ofbeldi á sér stað og ýmislegt annað sem gerir að verkum að viðkomandi gæti þurft á aðstoð lögreglu, sjúkraflutningamanna eða heilbrigðisstarfsfólks að halda. Við vitum það að vegna þess að varsla neysluskammta er ólögleg, þótt ekki sé neyslan ólögleg, getur fólk veigrað sér við að leita aðstoðar lögreglu, heilbrigðisstarfsfólks eða sjúkraflutningamanna á t.d. tónlistarhátíðum og öðru slíku. Ég tel a.m.k. að það geti bjargað mannslífum að afglæpavæða vímuefni vegna þess að þá muni þessi ótti hverfa að miklu leyti, vegna þess að þá er heilbrigðisstarfsfólkið og lögreglan ekki lengur einstaklingar sem gætu á einn eða annan hátt komið sér illa að leita sér hjálpar hjá eftir að hafa orðið fyrir ofbeldi, tekið of stóran skammt eða hvað sem það gæti svo sem hafa verið. Í anda skaðaminnkunar vil ég bara spyrja hæstv. ráðherra: Finnst henni ekki líka mikilvægt að huga að þessum hópi sem oft er ungt fólk sem kannski missteig sig að einhverju leyti, til að auka öryggi þeirra með því að afglæpavæða bara alla línuna?