150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

málefni innflytjenda.

[16:50]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er kannski rétt að byrja á því að nefna að íslensk útlendingalög eru ekki opin. Ef fólk er utan EES-svæðisins gildir einu hvort það vill flytjast hingað til lands vegna náms, starfa, ástar eða er á flótta undan stríði og hörmungum. Íslenskt lagaumhverfi hefur aldrei tekið viðkomandi opnum örmum. Árið 2016 voru samþykkt í þverpólitískri sátt útlendingalög sem bættu ástandið að því leytinu til að þau urðu skýrari en þau gerðu lítið til að opna kerfið eða loka því frá því sem var. Þau eru betri grunnur en efnislega eru þau lík ástandinu sem var fyrir. Þar er alltaf togstreita á milli mannúðar og skilvirkni sem gjarnan kemur upp í tengslum við brottvísanir flóttamanna.

Sú togstreita kom t.d. fram í apríl 2017 þegar fólk frá hinum svokölluðu öruggu upprunaríkjum og með bersýnilega tilhæfulausar umsóknir, eins og það heitir, naut ekki lengur þess réttaröryggis að málsmeðferð fyrir kærunefnd frestaði brottvísun þess. Þar voru hjólin smurð á brottvísunarmaskínunni í þessum sal. Það sama átti að gera með endursendingar viðkvæmra hópa til Grikklands núna í vor en ekki náðist að mæla fyrir því máli. Ítrekað hefur síðan verið þrengt að túlkun á því hvenær einstaklingur teljist sérstaklega viðkvæmur en það hefur ekki gerst hér í þessum sal heldur með reglugerðarbreytingum dómsmálaráðherra, sérstaklega á árinu 2018. Þess vegna er ekki hægt að segja að fréttir gærdagsins komi á óvart. Það er einfaldlega búið að hlaða upp í það kerfi að brottvísun kasóléttrar konu sem enn er með mál í kæruferli er bara hluti af kerfinu (Forseti hringir.) sem hér hefur verið smíðað.

Ég bind vonir við að sú nýja þingmannanefnd um útlendingamál sem ráðherra hefur boðað að skipuð verði á næstu dögum, ásamt þeim málum sem hún kemur með hingað til þings og þeirrar reglugerðarbreytingar sem ráðherra mun gera, (Forseti hringir.) muni færa okkur í átt til mannúðar en ekki frá henni eins og hefur verið raunin síðustu misseri.