150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er vonandi allt að komast á réttan kjöl með það að læra á lög um opinber fjármál þótt þau séu í fullu gildi. En hér eru þessi föstu atriði eins og áður var rakið með kirkjujarðasamkomulagið; það er augljóslega ekkert ófyrirsjáanlegt við það, þetta er endurtekið efni frá fyrri árum. Í 30. gr. er tiltekið að tilkynna beri um millifærslur og slíkt til fjárlaganefndar og maður veltir fyrir sér hvenær það eigi að gerast. Þegar ráðherra sér fram á að hann nái ekki að halda sig innan fjárheimilda á hann að láta viðkomandi fagráðherra vita af því og gera grein fyrir aðgerðum sem hann ætlar að grípa til og almennt séð á að tilkynna fjárlaganefnd um slík frávik. Ég hef ekki orðið var við að það hafi átt sér stað.