150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[18:35]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta samtal þarf að eiga sér stað en við getum í sjálfu sér ekki átt það fyrr en það liggur fyrir hvernig árið endar eða hvernig því lýkur og hvað verður þá flutt milli ára. Það verður upp úr áramótum sem við getum í raun botnað það. Ég vil af því tilefni benda á annað í þessu samhengi sem eru varasjóðir allra málaflokkanna og hversu hlutfallslega lítið hefur verið um að þeir hafi verið nýttir. Það hefur ekki verið í samræmi við væntingar mínar um framkvæmd þessa nýja fyrirkomulags og það sama má segja að gildi um tilfærslur innan málaflokka. Eftir því sem það er heimilað finnst mér að fagráðherrar hafi ekki í þeim mæli sem ég átti von á verið að nýta það stóraukna svigrúm sem þeir hafa til þess að hafa stjórn á fjármunum undir viðkomandi ráðuneyti. (Forseti hringir.) Þetta gefur tilefni til sérstakrar úttektar og skoðunar og þarna kemur fyrst upp spurningin: Eru menn ekki búnir að læra betur á lögin, að framkvæma þau? Eða er eitthvað annað sem býr þarna að baki?