150. löggjafarþing — 29. fundur,  11. nóv. 2019.

fjáraukalög 2019.

364. mál
[19:04]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þessa umræðu um fjáraukalagafrumvarpið. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Sirka 1,5% skekkja á heildarfjárheimildum fjárlaga, þar sem við erum með nokkuð stóra liði inni sem eru í raun algjörlega ófyrirséðir, finnst mér þannig séð ekki mikið en auðvitað safnast þegar saman kemur. Þegar við erum allt í allt að tala um tæpa 950 milljarða er 1% þó nokkur fjárhæð.

Mig langar að nefna atriði sem ég sakna að sjá ekki í fjáraukalagafrumvarpinu og það er vegna búsetuskerðinganna sem eru teknar þarna fram vegna álits umboðsmanns Alþingis sem hækkar upphæðina um 700–800 milljónir ef ég man rétt. Þó kann að vera að sú upphæð sé aðeins önnur en ég held fram hér. Það sem ég hef áhyggjur af í þessu sambandi er engu að síður að stjórnvöld hafi ákveðið að samþykkja niðurstöðu umboðsmanns Alþingis um að búsetuskerðingarnar hefðu ekki verið reiknaðar rétt og að þær þyrfti að leiðrétta. Hv. velferðarnefnd hefur síðan fengið það staðfest, bæði frá félags- og barnamálaráðuneyti og Tryggingastofnun ríkisins, að það sé töluverður handleggur að reikna þessar leiðréttingar, á köflum jafnvel svo snúið að nánast þurfi að fara út í handreikning hjá hverjum og einum einstaklingi sem þessar skerðingar eiga við. Vegna þessa þurfti Tryggingastofnun samkvæmt mínum upplýsingum að bæta við starfsfólki og það var nokkur þrýstingur á það, bæði af hálfu ráðuneytis og einnig velferðarnefndar, að Tryggingastofnun færi í útreikningana þegar á þessu ári til að hægt yrði að bregðast eins hratt við álitinu og kostur væri. Það hefur verið metið að kostnaðurinn vegna þessa geti verið um 50 milljónir og mér er kunnugt um að þetta hafi eitthvað verið rætt í fjárlaganefnd en þar sem ég á ekki sæti í nefndinni veit ég ekki alveg hvar sú umræða stendur. Mér finnst hins vegar þessi fjárhæð fremur eiga heima í fjárauka en í fjárlögum fyrir næsta ár, kannski líka vegna þess að í mínum huga er ákveðið prinsipp að ef við ákveðum að fela ríkisstofnun ný verkefni, sem ekki var gert ráð fyrir á fjárlögum yfirstandandi árs, sé ekki óeðlilegt að við bregðumst við með einhverjum hætti.

Hv. nefndarmenn í fjárlaganefnd eru e.t.v. búnir að ræða þetta í þaula og finna aðra leið en þá sem ég nefni en ég vildi bara nefna þetta hér sérstaklega þannig að nefndarmenn í hv. fjárlaganefnd gætu þá vegið og metið hvernig best væri að haga þessum málum og hvernig best væri að standa að þessari leiðréttingu. Við viljum a.m.k. ekki að vegna verkefna sem stjórnvöld ákveða sérstaklega að fela Tryggingastofnun á þessu ári lendi stofnunin í vanda varðandi starfsmannahald og rekstrarkostnað sem við tryggjum síðan ekki með einhverjum hætti að verði bætt stofnuninni.