150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Frú forseti. Umrætt fjárlagafrumvarp er hið þriðja í röðinni hjá núverandi ríkisstjórn og sem fyrr einkennist frumvarpið af skammsýni og brostnum loforðum. Og sem fyrr eru flestir umsagnaraðilar mjög gagnrýnir á frumvarpið og á það ekki síst við um þá aðila sem starfa í velferðar-, verkalýðs- og skólamálum. Mig langar í upphafi máls að draga fram það sem ég hef kallað tíu vondar fréttir í fjárlagafrumvarpinu:

1. Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskólinn og Háskólinn á Akureyri fá nánast sömu raunupphæð og í fyrra. Hjá framhaldsskólum er beinlínis lækkun á heildarfjármagni milli ára. Þetta er einfaldlega staðreynd sem má lesa skýrum stöfum í fjárlagafrumvarpinu og að halda öðru fram, eins og ég hef heyrt stjórnarþingmenn gera, er einfaldlega rangt. Að mínu mati er því eina stórsóknin í menntamálum í yfirlýsingum þessarar ríkisstjórnar.

2. Þrátt fyrir augljósa þörf hjá Landspítalanum, sem við öll erum sammála um að er fyrir hendi, vill ríkisstjórnin ná auknum fjármunum úr heilbrigðiskerfinu með aðhaldi. Á meðan standa yfir, og þetta er bein tilvitnun í forstjóra Landspítalans, „umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir á Landspítalanum“. Þetta eru hans orð. Þá vitum við sömuleiðis að það hefur ríkt slæmt ástand á bráðamóttökunni og enn „býr“ fjöldi eldri borgara á spítalanum vegna skorts á úrræðum.

3. Hið títtnefnda og marglofaða loforð um að afnema krónu á móti krónu skerðingar gagnvart öryrkjum er enn ekki að fullu fjármagnað í frumvarpinu. Enn eru öryrkjar látnir bíða eftir réttlætinu sem hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sagði, þegar hún var í stjórnarandstöðu, að þeir mættu alls ekki gera. Nú er tíminn einfaldlega á þrotum. Eftir þetta fjárlagafrumvarp er bara eitt fjárlagafrumvarp eftir. Við erum búin að heyra það ansi oft frá ráðherrunum: Já, þeir stefna að því að bæta hag öryrkja. Þeir stefna að því að grípa inn í rekstrarvanda Landspítalans og fleiri. En nú er tíminn einfaldlega á þrotum og þolinmæðin er líka á þrotum.

Frú forseti. Aldraðir fá ekkert sérstakt framlag umfram það sem er vegna fjölgunar í þeirra hópi í frumvarpinu og enn þá er rekstur nýrra hjúkrunarrýma ekki fjármagnaður til framtíðar. Hér þurfum við að líta aðeins út fyrir frumvarpið og til fjármálaáætlunar sem nær til fimm ára. Þriðja árið í röð er rekstrarfé hjúkrunarrýma skert af hálfu ríkisins með aðhaldskröfu.

4. Endurgreiðsla vegna kvikmyndagerðar er lækkuð um tæp 30%. Hvers konar pólitík er þetta? Þetta er ekki heimsins stærsti liður í fjárlögunum. Hér er verið að lækka endurgreiðsluna sem í sjálfu sér býr til peninga. Þetta fyrirkomulag hefur kallað inn erlend verkefni sem hafa einmitt aukið skatttekjur. Þess vegna skil ég ekki af hverju ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks er að klípa af þessu og það ekki lítið, 30%. Það þarf ekki annað en að heyra í kvikmyndageiranum til að vita að þau eru ekki par ánægð með þetta. Þingmenn í þessum sal þurfa svo sem ekkert að taka mín orð trúanleg en hlustið a.m.k. á hagsmunaaðilana. Þetta er gert í algjöru ósætti við kvikmyndagerðarfólk og sjónvarpsgerðarfólk á Íslandi. Framlög til Tækniþróunarsjóðs lækka, þau lækka til Innviðasjóðs, Lýðheilsusjóðs, Sprotasjóðs, Rannsóknasjóðs, Markáætlunar á sviði vísinda og tækni og þau lækka meira að segja til Jafnréttissjóðs. Þetta er pólitíkin sem sést svo skýrum stöfum í fylgiriti þessarar ríkisstjórnar með fjárlagafrumvarpinu. Og þetta er ekki allt.

5. Við sjáum að ríkisstjórnin leggur til lækkun til hjálpartækja, lækkun til endurhæfingarþjónustu og lækkun til verndaðra vinnustaða og lækkun til vinnusamninga öryrkja. Þetta finnst mér líka sérkennilegt. Af hverju ekki að hlífa þessum aðilum við aðhaldskröfunni og niðurskurði milli ára? Getum við ekki tryggt tekjur með þeim hætti að við þurfum ekki að grípa til svona niðurskurðar? Þetta er gagnrýnisvert, frú forseti.

6. Framlög til Persónuverndar, skattrannsóknarstjóra, Ríkisendurskoðunar og almennrar löggæslu lækka. Þetta er sérstaklega áhugavert því að nú eru færri lögreglumenn í landinu en voru fyrir tíu árum þrátt fyrir að ferðamönnum hafi fjölgað, fjölgunin hefur verið fimmföld á tíu árum og Íslendingum hefur fjölgað um nokkra tugi þúsunda. Af hverju er verið að klípa af almennri löggæslu um 400 milljónir? Það er gert.

7. Hér er stór punktur því að einungis er gert ráð fyrir að opinberir starfsmenn fái 3% launahækkun. Þetta stendur. Það á eftir að semja við opinbera starfsmenn en þetta er forsenda fjárlagafrumvarpsins, að opinberir starfsmenn, sem að langstærstum hluta eru konur, eigi að fá 3% launahækkun. Það þýðir einfaldlega kjararýrnun ef verðbólga fer yfir 3%. Ég vek athygli á því að þegar frumvarpið var lagt fram var gert ráð fyrir að verðbólgan yrði hærri en 3% þannig að forsenda ríkisstjórnarinnar var að stuðla að kjararýrnun opinberra starfsmanna því að hún ákvað að laun opinberra starfsmanna ættu að hækka um 3% í 3,2% verðbólguumhverfi. Nú hafa verðbólguspár lækkað niður í 2,6% en við eigum eftir að sjá hvernig verðbólgan endar. En þetta sýnir svo vel svart á hvítu, frú forseti, hvaða hagsmunir verða ofan á.

8. Þá eru það blessuð veiðileyfagjöldin. Mig langar aðeins að fara yfir það. Veiðileyfagjöld lækka á milli ára. Það er óumdeilt. Ég bara vona að þingmenn átti sig á hvað er lækkun og hvað er hækkun. Þau lækka á milli ára og þau eru líka að lækka frá því sem til stóð þegar frumvarpið var lagt fram fyrir einungis tveimur mánuðum. Það er líka alveg óumdeilt, við skulum ekki rífast um það því að þessar hártoganir og útúrsnúningar ná ekki nokkurri átt. Það sem ég er að gagnrýna og við í Samfylkingunni gagnrýnum er að veiðileyfagjöld eru of lág. Ég get ekki orðað þetta skýrar. Eins og ég gat um í andsvari mínu við formann fjárlaganefndar þá á veiðileyfagjaldið samkvæmt lögum að mæta annars vegar þeim kostnaði sem hið opinbera verður fyrir vegna sjávarútvegsins. Þetta erum við öll sammála um. En hins vegar á veiðileyfagjaldið líka að tryggja þjóðinni beina og sýnilega hlutdeild í afkomu veiðanna. Þetta stendur í texta frá sjávarútvegsráðherra Sjálfstæðismanna, það á að tryggja beina og sýnilega hlutdeild þjóðarinnar í afkomu veiðanna. Nú kemur í ljós að tekjur af veiðileyfagjaldinu verða á næsta ári lægri en sá kostnaður sem ráðherra sjálfur metur að skattgreiðendur verði fyrir vegna þjónustu hins opinbera gagnvart útgerðinni. Þessar kostnaðartölur koma frá hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þegar hann breytti lögum um veiðileyfagjald 2018 kom fram í greinargerð þess frumvarps að kostnaðurinn átti að vera 5,1 milljarður. Veiðileyfagjöldin ná því ekki að dekka þann kostnað sem skattgreiðendur, okkar umbjóðendur, verða fyrir vegna þjónustu gagnvart greininni og hvað þá að þjóðin, sem á auðlindina samkvæmt lögum, fái beina og sýnilega hlutdeild í afkomu veiðanna.

Þetta er gagnrýnisvert, frú forseti. Þar með er hlutdeild þjóðarinnar í tekjum af veiðileyfagjaldinu orðin að engu. Og veiðileyfagjaldið er ekki tekjuskattur, ég bið þingmenn að vera ekki að rugla þessu saman. Veiðileyfagjald er sérstakt gjald fyrir aðgang að einum bestu fiskimiðum jarðar sem samkvæmt lögum eru í eigu þjóðarinnar en ekki í eigu útgerðarinnar. Þetta er algerlega skýrt. Og til að draga fram fáránleikann í þessu, ég gerði það hér áðan, þá sjá allir hversu fáránlegt það er að laxveiðimenn munu greiða meira fyrir sín veiðileyfi á næsta ári en útgerðin. Það stefnir í að veiðileyfagjaldið verði lægra en tóbaksgjaldið, sem sýnir fáránleikann í þessu fyrirkomulagi.

Það þarf að breyta reglunum, ég átta mig alveg á því, og við skulum bara gera það. Við skulum tryggja að þjóðin fái sanngjarna hlutdeild í nýtingu á þeirri auðlind sem hér er nýtt. Ég veit mætavel að sjávarútvegurinn greiðir hina ýmsu skatta. Ég vil að sjávarútveginum vegni vel og það er mikilvægt að hann hafi góða afkomu, fyrr má nú vera, ég átta mig alveg á því. Ég veit að sjávarútvegur greiðir tekjuskatt, launaskatt, tryggingagjald o.s.frv., ég átta mig á því, en það gerir hver einasta sjoppa og efnalaug líka í þessu landi. Sjávarútvegurinn er í sérstakri stöðu því að hann nýtir sér auðlind sem hann á ekki. Þetta er prinsippmál sem ég held að þingmenn átti sig alveg á. Ég hef nú aðeins tekist á við hv. formann fjárlaganefndar: Er lækkun hækkun eða hækkun lækkun? Mér finnst það svo mikill útúrsnúningur en ég ætla samt að reyna að vera skýr. Þegar þessi ríkisstjórn tók við völdum var veiðileyfagjald 11,2 milljarðar. Það var lagt fram fjárlagafrumvarp fyrir tveimur mánuðum og gert ráð fyrir 7 milljörðum. Núna kemur nýtt skjal frá hv. þingmanni, formanni nefndarinnar, nefndarálit, og tillögurnar eru hérna, tillögur til breytinga á tekjuhlið fjárlaga: Veiðileyfagjöld lækka um 2 milljarða.

Mér finnst alger hártogun að tala hér um hvort þetta sé breyting eða endurmat. Kjarni málsins er að hér lækkar veiðileyfagjald frá því sem til stóð og lækkar á milli ára þannig að við skulum ekki vera með orðhengilshátt hvað þetta varðar, a.m.k. vil ég reyna að forðast það ef hægt er. Sömuleiðis get ég vitnað í bréf fjármálaráðherra sem var lagt fram fyrir hönd ríkisstjórnarinnar þar sem hann fer fram á þessa breytingu. (PállM: Þetta eru áætlaðar tekjur.) Áætlaðar tekjur, allt í lagi, mér er alveg sama hvað þið kallið þetta. Tekjurnar lækka, það er það sem ég er að draga fram. Þið megið kalla þetta hvað sem er en tölurnar eru þannig. Hér er líka bent á það að ef þið hefðuð ekki breytt lögunum þá hefðu tekjur af veiðileyfagjaldinu verið enn lægri. Ég vil svara því að það eru frekar fátækleg rök að veiðileyfagjaldið hefði verið enn lægra ef breytingar hefðu ekki verið gerðar. Að lagfæra gallað kerfi með öðrum galla er ekkert sérstaklega skynsamlegt.

Síðan er líka sagt, og ég skal svara því, að veiðileyfagjald sé lægra nú vegna þess að lög kveði á um það. Gott og vel. Hverjir breyttu lögunum til að útgerðarmenn myndu greiða lægra veiðileyfagjald? Já, það var núverandi ríkisstjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Þetta var eitt það fyrsta sem ríkisstjórnin gerði. Við tókumst á um þetta hérna 2018, rifumst um þetta. Við í Samfylkingunni og fleiri flokkar og aðrir umsagnaraðilar, Alþýðusamband Íslands, bentum á að með því að breyta lögunum eins og ríkisstjórnin var að gera, þið sem sitjið hér, væru veiðileyfagjöld að lækka. Þið getið ekki, frú forseti, hrósað ykkur sérstaklega með því að segja að ef þið hefðuð ekki breytt lögunum væri veiðileyfagjaldið enn lægra. Mér finnst þau rök ekki ná í gegn. Það var sérstaklega bent á að veiðileyfagjöld yrðu lægri með ykkar ákvörðun. Nú hafa þau sjaldan verið eins lág síðan við tókum þau upp.

Það er vísað í afkomutenginguna. Hún skiptir máli. Förum aðeins yfir það. Þessu er slengt framan í mann: Já, en afkoman var svo slæm 2018. Veiðigjöldin taka mið af 2018. Förum aðeins yfir það. Hvernig var afkoman í sjávarútvegi 2018? Þetta eru tölur frá sjávarútveginum sjálfum. Þetta er það sem Deloitte tók saman fyrir sjávarútveginn á sjávarútvegsdeginum um daginn. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki högnuðust um tæpa 30 milljarða árið 2018, á því ári sem um er að ræða. Arðgreiðslur sem fara í prívatvasa útgerðarmanna voru yfir 12 milljarðar það árið. Ef við lítum aðeins á það hvernig sjávarútvegurinn hefur þróast undanfarin ár þá hafa arðgreiðslur frá 2010, arðgreiðslurnar sem fara bara í prívatvasa eigenda fyrirtækjanna, verið um 100 milljarðar. LÍÚ, sem heitir SFS núna, hefur kallað þessi ár gullaldarár. Ekki mín orð, þeirra eigin orð. Þessi ár hafa verið íslenskum sjávarútvegi mjög gjöful en mér finnst að íslenskur almenningur hafi verið hlunnfarinn því það er hann sem á þessa auðlind. Aftur undirstrika ég það að ég vil að sjávarútveginum vegni vel en hann er aflögufærari en hv. þingmenn stjórnarflokkanna halda að hann sé. Lítum á eina tölu í viðbót: Hagur sjávarútvegsins, þ.e. aukið eigið fé og arðgreiðslurnar, hefur batnað um 450 milljarða á einum áratug. Veiðileyfagjaldið sem við erum að rífast um, sem er gjald fyrir að veiða úr hinni sameiginlegu auðlind sem er undirstaða þessa hagnaðar, ef má orða það þannig, er einungis lítill hluti hagnaðarins. Mér finnst þetta vera stóra grundvallaratriðið og ég er ekki feiminn að taka þessa umræðu við ykkur. Mér finnst það mikilvægt. Það er bara mjög opinberandi að sjá muninn á þeim stjórnmálaflokkum sem tala með þeim hætti sem ég geri og ykkur sem talið með öðrum hætti. Það er allt í lagi, fólk á að hafa val þegar það kemur í kjörklefann.

Ég er með allar þessar umsagnir frá 2018 sem sögðu að það væri verið að lækka veiðileyfagjöldin en ég ætla ekki að eyða tíma í það. Mig langar hins vegar að benda á eitt. Hér er tilvitnun, frú forseti, í ónefndan stjórnmálamann sem segir fyrir kosningar:

„Ég tel bara að þessi gjöld hafi verið lækkuð allt of skarpt og ég held að þau geti skilað sér betur án þess að það ógni hagsmunum útgerðarinnar í landinu. Ég meina, horfum bara á þær arðgreiðslur sem hafa verið að fara út úr stórum útgerðarfyrirtækjum á undanförnum árum upp á hundruð milljóna. Finnst okkur þetta eðlilegt?“

Hver haldið þið að hafi sagt þetta? Hver sagði að veiðileyfagjöldin hefðu lækkað allt of skarpt og þau ættu að hækka og þessi þingmaður var að velta fyrir sér arðgreiðslum upp á 100 milljónir. Þetta var Katrín Jakobsdóttir sem nú situr ekki lengur hérna megin í salnum heldur hinum megin. Á þessum tíma, þegar hún gagnrýnir það að veiðileyfagjaldið hafi lækkað of skarpt, voru veiðileyfagjöldin hærri en það sem hún stendur núna fyrir í gegnum sín fjárlög. Mér finnast þetta sérkennileg sinnaskipti, við skulum orða það pent. Annað sem sýnir hvað þetta snýst mikið um hagsmuni: Mér fannst það mjög upplýsandi þegar hæstv. fjármálaráðherra kom í þennan sal, líklega í síðustu viku, með eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar en þá lá afskaplega mikið á að afnema stimpilgjöld af kaupum á stórum skipum. Allt í einu var það orðið forgangsmál. Það er mjög athyglisvert. Á meðan er almenningur látinn greiða sín stimpilgjöld, t.d. af húsnæði, þar á meðal fyrstu kaupendur. Með afnámi stimpilgjalds á stórum skipum á enn og aftur að lækka gjöld á útgerðarmönnum. Ég er svolítið hissa á vinum mínum í Vinstri grænum að láta bjóða sér þetta aftur og aftur. Fólk sér alveg að hagsmunagæslan fyrir stórútgerðina verður ekki augljósari. Nú stefnir í að við rekum ríkissjóð með halla. Það kreppir að ýmsum hlutum velferðarþjónustunnar þannig að það er ekki eins og ekki sé þörf fyrir frekari tekjur hjá ríkinu en samt verða þessir hagsmunir ofan á.

Herra forseti. Ég ætla kannski að láta staðar numið um veiðileyfagjöldin, en þetta eru áhugaverðar staðreyndir.

9. Ég er enn þá að tala um þessar tíu vondu fréttir í fjárlagafrumvarpinu, ég var kominn í átta. Í níunda lagi þurfum við að eyða miklu meiru í umhverfismálin sem eru mál málanna. Einungis 2% af fjárlögunum fara í umhverfismál og meira að segja Skógræktin fær lækkun milli ára. Þetta er sérkennilegt og þvert á það sem við heyrum ráðherrana segja. Ég er orðinn svolítið þreyttur á þessum bólgnu yfirlýsingum ráðherranna sem eiga sér kannski litla stoð í fjárlagafrumvarpinu þegar á reynir. Auðvitað veit ég að það er ýmislegt jákvætt í frumvarpinu, þetta eru 1.000 milljarðar. Ég er að draga fram hið neikvæða. Það er mitt hlutverk. Ég er í stjórnarandstöðu og er að draga fram hvað betur mætti fara. Síðan er það ykkar hlutverk að draga fram það sem þið eruð stolt af. En það er margt í frumvarpinu sem ég held að við hefðum getað verið sammála um að lagfæra. Það er margt í því sem þarf ekki að lenda í skotgröfum stjórnmálaflokkanna en okkur sem erum í minni hluta er sjaldan hleypt að þeirri umræðu.

10. Það er sérstök aðhaldskrafa enn þá í fjárlögum á sjúkrahús, öldrunarstofnanir og skóla.

Frú forseti. Nú er samdráttur hafinn í hagkerfinu, samdráttur sem við töluðum um að myndi gerast á árinu fyrir einu ári en þið hlustuðuð ekki á það. Þá er enn brýnna en áður að gætt sé að innviðum samfélagsins og jöfnuði. Jöfnuður er ekki bara skynsamlegur og réttlátur, hann er líka góð hagfræði. Hann er góð efnahagspólitík. Jöfn samfélög eru rík samfélög. Ójöfnuður á Íslandi er vandamál, hann liggur fyrst og fremst í eignaójöfnuði. Ég veit að tekjujöfnuður á Íslandi er talsverður í alþjóðlegum samanburði en það er eignaójöfnuðurinn sem ég hef miklar áhyggjur af. Ég kom aðeins að honum áðan. Þá skiptir að sjálfsögðu miklu máli að stjórn á ríkisfjármálum sé ábyrg á sama tíma og þörf fyrir opinbera fjárfestingu er uppfyllt. Það sem ég hef verið að benda á er að fjárlagafrumvarpið felur ekki í sér þá framtíðarsýn sem Íslendingar hafa verið að kalla eftir.

Í því ljósi hefur Samfylkingin lagt fram breytingartillögur við frumvarpið upp á 20 milljarða kr. Við leggjum til breytingar til að gera fjárlögin framsæknari. Tillögurnar snúa annars vegar að því að sækja fram á sviði menntunar, nýsköpunar og í loftslagsmálum og hins vegar að því að verja velferð almennings; barnafjölskyldur, heilbrigðisþjónustu og þá sem standa höllum fæti. Við tvískiptum þessari breytingartillögu, önnur lýtur að framtíðinni. Það eru 10 milljarðar. Við leggjum til að settir verði 4 milljarðar í aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Við leggjum til að háskólarnir, Háskóli Íslands, Listaháskólinn, Háskólinn í Reykjavík, Bifröst, Háskólinn á Akureyri og aðrir háskólar, fái 2 milljarða. Við leggjum að framhaldsskólarnir fái 1 milljarð. Þið munið að þeir fá á sig lækkun milli ára. Litla lækkun, ég átta mig á því en framhaldsskólar fá ekki aukningu þrátt fyrir að styttingarpeningarnir ættu að haldast. Ég veit að þið getið reiknað ykkur upp í hækkun eða reiknað per haus, ég veit alveg hvað ég er að tala um, en þegar við styttum framhaldsskólanámið var sagt að styttingarpeningarnir myndu haldast. Í ofanálag er búið að boða stórsókn í framhaldsskólanum. Hún er ekki sjáanleg.

Við erum með tillögu um að setja aukna fjármuni í Tækniþróunarsjóð, Rannsóknasjóð og Innviðasjóð. Við viljum bakka með þessi vondu áform ríkisstjórnarinnar um að skera niður endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar. Við erum með tillögu um að það verði ekki gert og viljum setja 300 milljónir þar til viðbótar. Við viljum sömuleiðis auka endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar fyrirtækja. Svo er tillaga um almenningssamgöngur.

Tillögur sem lúta að velferðarmálum eru í fyrsta lagi um aukningu í barnabætur og lengingu fæðingarorlofs flýtt. Við viljum setja fjármuni í Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri og þið vitið að ástandið þar stefnir í 4 milljarða halla á Landspítalanum að öllu óbreyttu. Það er verið að reyna að setja eitthvað núna í fjáraukann sem er kannski ekki beint ófyrirséð. Við eigum ekki að setja neitt í fjáraukalög nema það sem er ófyrirséð. Það er bara samkvæmt lögum. Við viljum setja aukna fjármuni í heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni, hjúkrunarheimilin, til aldraða og öryrkja og við viljum setja 400 milljónir í löggæslu sem er sama upphæð og fyrirhugaður niðurskurður til almennrar löggæslu. Að lokum viljum við setja 200 milljónir til SÁÁ. Við förum ekkert á hausinn við að bæta aðeins í SÁÁ sem er núna að kljást við lengstu biðlista í sögu samtakanna. Getum við ekki verið sammála um þetta? Þetta er skiptimynt. Þetta er svo lítið fyrir þennan sal að við hljótum að geta verið sammála um þetta. Á tíu daga fresti deyr Íslendingur vegna ofneyslu lyfja, á tíu daga fresti deyr annar Íslendinga vegna sjálfsvígs. Það eru margar vísbendingar um að okkur líði hálfilla í þessu samfélagi. Við erum með heimsmet í neyslu á þunglyndis- og kvíðastillandi lyfjum. Það eru mörg hundruð sjálfsskaðar hjá ungu kynslóðinni. Þetta er ekki flokkspólitískt mál, alls ekki. Hér getum við einfaldlega verið sammála og stórhuga til að mæta þeim vanda sem fíknisjúkdómar valda í samfélaginu. Þessi hógværa tillaga um SÁÁ hlýtur að vera eitthvað sem þið getið samþykkt. En ég man, eftir að hafa starfað í þessum sal í þrjú ár með þessu fólki, að það hefur fellt hverja einustu tillögu sem við höfum lagt fram. Ég vona að það verði ekki tilfellið núna, að við getum aðeins íhugað einhverjar af breytingartillögum stjórnarandstöðunnar, ekki endilega bara Samfylkingarinnar. Aðrir flokkar eru með góðar tillögur líka. Hversu flókið er það fyrir stjórnina að samþykkja tillögur sem þið í hjarta ykkar eruð sammála um og hafið talað fyrir og munið tala fyrir eftir 18 mánuði þegar þið farið í kosningabaráttu? Ég veit ekki hvernig það verður því mín reynsla er að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa fellt hverja einustu tillögu sem kemur frá stjórnarandstöðunni þegar kemur að fjárlögunum. Ég bara skil það ekki.

Þessar breytingartillögur eru 20 milljarðar en við erum líka með hugmyndir um hvernig á að fjármagna þær. Ég kem að því aðeins síðar, en ég get svo sem nefnt það, fyrst ég er að tala um þetta, að auðvitað eru það veiðileyfagjöldin. Við höfum líka talað fyrir tekjutengdum auðlegðarskatti, stóreignaskatti. Við höfum talað um hækkun kolefnisgjalds, hert skatteftirlit, afnám samnýtingar skattþrepa og hækkun fjármagnstekjuskatts. Já, þetta eru skattahækkanir, ég er ófeiminn að tala um það, en þetta er hin breiðu bök sem hafa efni á því að leggja aðeins meira af mörkum. Það er það sem við í Samfylkingunni tölum fyrir. Fjármagnstekjuskattur er sá lægsti á Íslandi á öllum Norðurlöndum og þótt við myndum hækka hann um 2 prósentustig þá væri hann enn þá lægstur á öllum Norðurlöndunum. Í vaxandi eignaójöfnuði held ég að auðlegðarskattur, stóreignaskattur, sérstaklega ef hann er tekjutengdur og við aðskiljum íbúðir eða húsnæði, eigi fullkomlega rétt á sér. Ég hef talað fyrir mengunarsköttum og öðru þannig að það eru ýmsar leiðir til að standa undir þeim auknu útgjöldum sem við tölum hér fyrir.

Frú forseti. Það er augljóst að við í Samfylkingunni leggjum ekki fram fullmótað fjárlagafrumvarp og það er margt sem við hefðum gert öðruvísi. En þetta eru a.m.k. hugmyndir okkar sem við erum að leggja á borðið í þeirri von að við getum gert þessi fjárlög aðeins skárri fyrir fólkið sem kaus okkur. Það er það eina sem við erum að reyna að gera. Þið megið alveg fá kredit fyrir það ef þið viljið.

Frú forseti. Ég hef eins og í fyrra og í hittiðfyrra talsverðar áhyggjur af því að forsendur fjárlagafrumvarpsins séu í litlu samræmi við raunveruleikann. Við erum vön að tala um þetta í fjárlaganefnd, en gert er ráð fyrir óbreyttu gengi krónunnar, að hagvöxtur taki tiltölulega hratt við sér á næsta ári, gert ráð fyrir svipuðu atvinnuleysi, óbreyttu olíuverði og það er gert ráð fyrir tiltölulega lágri verðbólgu. Þetta eru allt forsendur sem ég tel vera allt of óraunsæjar. Þetta sögðum við líka í fyrra og það kom á daginn. Auðvitað vona ég að þessi niðursveifla verði lítil og kreppan verði stutt en við þurfum að vera raunsæ í okkar fjárlagagerð og okkar mati á framtíðinni. Sem fyrr er fíllinn í stofunni, eða hvað við köllum það, krónan. Hún sveiflast eins og korktappi í ólgusjó. Almennt séð þegar gengið fellur orsakar það yfirleitt aukna verðbólgu. En nú virðist það samband vera að veikjast. Það er mjög áhugavert. Ef krónan fellur um 10% hækkar verð á öllum innfluttum vörum um 10%, svona í excel-skjalinu, en það hefur ekki gerst í þeim mæli sem módelin gerðu ráð fyrir og það er mjög áhugavert. En við framleiðum ekki allt á Íslandi, eðli málsins samkvæmt, og innfluttar vörur eru þriðjungur af heildarútgjöldum okkar og þar af koma þrír fjórðu hlutar frá Evrópu. Sveiflan í krónunni hefur svo mikil áhrif, bein áhrif á verðlag og verðbólgu, vexti, hagvöxt, einkaneyslu, skatttekjur. Krónan eins og hún er er svo mikill orsakavaldur í því sveiflukennda umhverfi sem við lifum í.

Ég hef talsverðar áhyggjur af auknu atvinnuleysi sem ég veit að allir í þessum sal hafa. Það er ömurlegt að hafa atvinnuleysi í okkar samfélagi og það eru tæplega 7.000 manns atvinnulausir. Hérna þurfum við að snúa bökum saman, í því hvernig við tæklum þetta og reynum að koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Ég man þegar síðasta vinstri stjórn var hér voru margs konar aðgerðir í að vinna gegn atvinnuleysi og koma í veg fyrir langtímaatvinnuleysi. Skólarnir voru opnaðir, það voru alls konar námskeið og alls konar aðgerðir til að bregðast við auknu atvinnuleysi og ég brýni ráðherrana, hvar sem þeir eru, til góðra verka hvað það varðar.

Aðeins um eignaójöfnuðinn. Sumir hafa engar áhyggjur af honum. Ég hef áhyggjur af honum. Hann er vondur fyrir samfélagið, vaxandi eignaójöfnuður er vandamál. Þetta er ekki bara að hefðbundnum vinstri manni finnst óþægilegt að eitthvert fólk sé ríkt. Þetta snýst ekkert um það. Þetta snýst um á hvaða vegferð þetta samfélag er og hvort við séum með kerfi sem er sérstaklega að hygla þeim sem eiga mest og mikið. Þetta er lítið samfélag sem við búum í og mikill eignaójöfnuður er vondur fyrir okkar litla samfélag. Auðvitað verða aldrei allir jafnir, ég átta mig alveg á því, en þegar við erum komin með eignaójöfnuð þar sem fjölskyldur og einstaklingar eiga milljarða, jafnvel tugmilljarða, er ekki ástæða til að staldra við og velta því fyrir sér? Þetta er umræða sem hver einasta vestræn þjóð og í rauninni flestar þjóðir í heimi eru að ræða, eignaójöfnuður, framlag til skattkerfisins. Hverjir greiða skatta og hverjir ekki? Hverjir leggja meira af mörkum en aðrir? Það er sláandi að Ísland er langneðst allra Norðurlandanna á lista Oxfam þegar kemur að aðgerðum gegn ójöfnuði. Það er sláandi að 1% landsmanna á meiri hreinar eignir, þ.e. eigið fé, en 80%. Og 5% landsmanna eiga 41% allra hreinna eigna. Hver er þróunin? Þróunin frá 2010 er að eigið fé ríkasta 0,1%, ríkustu fjölskyldur í landinu, hefur aukist um tæpa 100 milljarða eða um 68%. Ég er kannski að missa ykkur með öllum þessum tölum en alls þénaði ríkasta eitt prósentið 35% af öllum fjármagnstekjunum. Ef við stækkum hópinn og tökum 5% ríkustu þá tóku þau rúman helming allra fjármagnstekna. Ein tala í viðbót, nú er ég kannski alveg búinn að missa ykkur, en 43% af nýjum auð frá árinu 2010 hefur endað hjá ríkustu 10% landsmanna.

Bæði er ég að draga fram að eignaójöfnuðurinn er mikill á Íslandi. Hann er mikill á Norðurlöndunum, það kemur kannski fólki á óvart af því að ríkin á Norðurlöndunum hafa stært sig af því að vera jafnaðarsamfélög. Tekjujöfnuður er talsverður á Norðurlöndunum, eignaójöfnuður mikill. Hann er t.d. meiri í Svíþjóð en á Íslandi, bara til samanburðar og fróðleiks. Þessi nýi auður er líka svolítið vanmetinn hjá hinum ríku. Af hverju? Það er samkvæmt skattframtölum vegna þess að hinir ríku eiga helst hlutabréf og þau eru ekki skráð á markaðsvirði, þau eru skráð á nafnvirði. Allir sem fylgjast með hlutabréfamarkaði vita að það getur verið himinn og haf á milli nafnvirðis hlutabréfa og markaðsvirðis. Og við höfum kannski ekki fulla yfirsýn yfir hvar allur auður hinna ríku er, eins og dæmin sanna. Þetta er áhyggjuefni, eignaójöfnuðurinn, sem við þurfum að huga að.

Aðeins um opinbera starfsmenn. Ég held að við eigum að tala oftar um gildi opinberrar þjónustu hér á landi og hvað það skiptir miklu máli að hafa öfluga opinbera starfsmenn, kennara, sjúkraþjálfara, sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, lækna, löggur. Þetta er fólkið sem heldur uppi velferðarkerfinu, skólakerfinu og sameiginlegum innviðum sem við erum alltaf að tala fyrir. Við megum ekki láta þessa hópa sitja eftir en það fannst mér vera skilaboðin í fjárlagafrumvarpinu þegar gert var ráð fyrir 3% launahækkun í 3,2% verðbólgu. Það var forsendan, sem núna hefur lækkað. Við sáum það í umsögnum BHM og BSRB um þetta blessaða frumvarp, þau mótmæltu kröftuglega þessari kjararýrnun. Ég hef nú rætt þetta áður hér úr þessum ræðustól en þetta gerist á sama tíma og við sjáum ótrúlegar launahækkanir ríkisforstjóra. Sumir þeirra hafa hækkað um 30–80% á tveimur árum. Sum þessara launa hafa hækkað um heil kennaralaun á mánuði við síðustu hækkun. Ég veit að það er búið að breyta launakerfinu með kjararáði og öðru slíku en það að launakerfið sé núna komið inn til ráðuneytisins hefur ekki stoppað þessar launahækkanir. Nýja launakerfið sem tók gildi um áramótin hafði í för með sér að hjá tveimur af þremur ríkisforstjórum hækkuðu laun, um allt að 27% í þeirri lotu í sumum tilvikum.

Hvernig stendur á því, frú forseti, að stjórnvöld standa að hækkun launa ríkisforstjóra um 30–80% á sama tíma og kennarar, sjúkraliðar, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, lögreglumenn, tollverðir og þroskaþjálfarar eiga að fá 3%? Nýverið slitnaði upp úr kjaraviðræðum ríkis og BSRB og mér finnst það lýsa ansi vel afstöðu stjórnvalda til þessara lykilstétta. Formaður BSRB sagði meira að segja, með leyfi forseta: „Ríkið hefur ekki verið í kjarasamningaviðræðum af heilum hug.“ Þetta eru stór orð frá formanni BSRB. Í BSRB eru á þriðja tug þúsunda opinberra starfsmanna og þar af eru tveir þriðju konur. BSRB er ekki aðeins stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna heldur einnig stærsta verkalýðssamband kvenna hérlendis. Og þetta segir formaður þessa stóra sambands. Ríkið hefur ekki verið í kjarasamningaviðræðum af heilum hug.

Varðandi öryrkjana þá ætla ég að deila með ykkur einni beinni tilvitnun: „Allir málaflokkar sem varða fatlað fólk og örorkulífeyrisþega eru sveltir.“ Þetta er bein tilvitnun í umsögn Öryrkjabandalagsins um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Aftur ítreka ég að hv. þingmenn stjórnarflokkanna þurfa ekkert að taka mark á mér, stjórnarandstöðuþingmanni í Samfylkingunni, en takið mark á Öryrkjabandalaginu. Hlustið á hvað ASÍ er að segja eða BSRB eða BHM. Þetta eru líka ykkar skjólstæðingar, líka ykkar kjósendur. Öryrkjar eru hópur sem hefur allt of lengi verið vanræktur á Íslandi. Þetta eru yfir 20.000 manns. Öryrkjar eru sá hópur sem við ákveðum launin hjá. Nú stefnir í að mati Öryrkjabandalagsins að það muni muna 90.000 kr. á bótum þeirra, örorkulífeyri, miðað við lágmarkslaun. Það er meira en milljón á ári. Hvaða sanngirni er það? Það er enginn sem velur það að vera öryrki. 70% öryrkja eru undir 300 þúsund kalli. Fólk þarf að lifa á örorkulífeyri sem við ákveðum. Getum við ekki a.m.k. haft hann jafn háan lágmarkslaunum? Það stefnir í 90.000 kr. mun á mánuði. Við getum gert betur fyrir þennan hóp fólks sem við tölum svo iðulega um hér.

Ég hef bent á tekjuleiðir. Ég veit að það þarf að fjármagna þetta. Þess vegna er ég að æpa mig hásan um veiðileyfagjöld, fjármagnstekjuskatt, auðlegðarskatt og kolefnisgjald því ég vil fá tekjur þaðan til að mæta kjarabótum hjá þessum hópi. Peningarnir eru til. Þeir vaxa ekki á trjánum. Þeir verða til hjá fólkinu og fyrirtækjum í landinu. Við þurfum að hafa kjark til að sækja peningana með sanngjörnum hætti. Ég er ekki að tala fyrir því að auka álögur á millistéttarfólk og venjulegt fólk sem býr í einu dýrasta landi í Evrópu. Ég er einmitt að reyna að afmarka þann hóp sem getur lagt meira af mörkum. Ég er ekki að tala fyrir alhliða skattahækkun, bara alls ekki. Það þarf kannski ekkert svo mikið til. Þessir 20 milljarðar sem Samfylkingin leggur til, við erum með 1.000 milljarða frumvarp og 20 milljarðar myndu ná ansi langt til að bæta úr og myndi ekki verða neinum að falli.

Félag eldri borgara og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa í umsögnum lýst yfir miklum áhyggjum af sínum fjárhag og ég vil sérstaklega flagga því að talið er að rekstur hjúkrunarheimila á landsbyggðinni sé afskaplega þungur. Mér finnst að þingmenn allir ættu að huga að því. Þetta er reyndar ekki nýr vandi og ég er ekki að kenna þessari ríkisstjórn um það. Við þurfum bara saman að tækla fjárhagsvanda hjúkrunarheimilanna. Við fáum þetta upp á borð á hverju einasta ári. Ég er ekki að boða einhverja auðvelda lausn á því, eina sem ég veit er að fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á 25 árum þannig að vandinn er svo sannarlega ekki að hverfa frá okkur. En við þurfum saman að hugsa þessi mál.

Hér er verið að bæta í barnabætur og ég fagna því en ég hlýt að minna á að hv. þingmenn stjórnarflokkanna hafa fellt þrisvar eða fjórum sinnum tillögur Samfylkingarinnar um auknar barnabætur. Þessi aukning í barnabætur núna kemur til vegna þess að aðilar vinnumarkaðarins kröfðust þess í lífskjarasamningunum. Hækkunin nemur 0,1% af fjárlögum og finnst ríkisstjórninni það vera vel í lagt en það þarf að gera miklu betur í barnabótum. Hér eru kannski hugmyndir á flugi, menn muna kannski að ekki síst Sjálfstæðismenn hafa, að því er mér finnst, oft nálgast málið þannig að barnabætur eigi að vera einhvers konar fátækrastyrkur, hluti af algjöru öryggisneti. Ég nálgast það ekki þannig. Við eigum að setja myndarlega í barnabætur. Við eigum að hjálpa barnafólki á þessu afmarkaða skeiði síns lífs þegar það er með ung börn og kostnaðurinn er eftir því. Með því værum við að gera lífið auðveldara. Það eru 11 milljarðar eða svo settir í barnabætur, það eru ekki stóru tölurnar í þessu samhengi. Við sjáum að einn fjórði er dottinn út úr barnabótakerfinu út af skerðingum. Við erum með tekjuskerðingar og eignaskerðingar sem hafa setið eftir lengi en nú er aðeins verið að bæta í og ég fagna því. En betur má ef duga skal. Það var nú einu sinni talað um að hér væru 6.000 börn sem lifðu við skort í okkar ríka samfélagi. Það er ekki lág tala. Við erum tíunda eða ellefta ríkasta þjóð í heimi og hér getum við gert betur.

Samhliða þessu höfum við í Samfylkingunni og fleiri bent á vaxtabótakerfið sem er nánast horfið. Það stefnir í að vaxtabætur verði rúmir 3 milljarðar. Síðast þegar Samfylkingin var í ríkisstjórn með Vinstri grænum voru settir 16 milljarðar í vaxtabætur, ef ég uppreikna það. Helmingurinn er dottinn úr vaxtabótakerfinu út af því að skerðingarnar hafa verið svo grimmar þannig að vaxtabótakerfið er bara farið. En vaxtabætur skipta máli fyrir fólk sem hefur hvað lægstar tekjurnar. Ég man að í vinstri stjórninni sem var að kljást við sögulegan halla, og hv. þm. Oddný Harðardóttir var fjármálaráðherra, var hugmyndafræðin og áherslan sú að setja mikið í barnabætur og vaxtabætur. Helmingur af þeirri upphæð sem tekjulægstu heimilin voru að greiða í húsnæðiskostnað var dekkaður með vaxtabótum. Samfylkingin varði 100 milljörðum kr. ásamt Vinstri grænum, þegar þau voru vinstri menn, í vaxtabætur og barnabætur á kjörtímabilinu.

Nú er ég að reyna að fá Vinstri græna með mér í lið að gera aðeins betur og ég veit að þeir vilja það og hefðu gert betur hefðu þeir starfað með okkur í ríkisstjórn. En þeir bera ábyrgð á þessari ríkisstjórn og þess vegna þola þeir alveg að ég gagnrýni þá aðeins.

Fæðingarorlof, það er verið að bæta einum mánuði við það. En það er annað sem ég vil aðeins vekja athygli á, það er fæðingarstyrkur. Ég veit að umsóknum um hann hefur fækkað, en hann er skammarlega lágur. Ég man það ekki alveg, 75.000 kall, eitthvað svoleiðis. Þetta eru fyrst og fremst konur sem eru utan vinnumarkaðar, konur og karlar, eða í námi.

Aðeins um skólamálin. Í stjórnarsáttmálanum eru mjög stór loforð um að fjármögnun háskólastigsins nái fyrst OECD-viðmiðinu og síðan meðaltali Norðurlanda. Við hæstv. ráðherra höfum tekist aðeins á um þessar tölur og mér finnst við ekki enn vera sammála. Ég er bandamaður hæstv. menntamálaráðherra í því að fá meiri pening fyrir háskólastigið. Hún er með þetta afgerandi loforð í stjórnarsáttmála og mér sýnist við enn ekki vera að ná því þrátt fyrir þá aukningu sem er til háskólastigsins. Ég kann allt um þetta, LÍN var tekið út og annað slíkt, en ef við skoðum fjármálaáætlunina þá sýnist mér háskólastigið, án LÍN, fá svipað núna og eftir fjögur ár. Það rímar ekki við að ná Norðurlandaviðmiðinu. Ég ætla ekki að fara að rífast um þetta, ég held bara að við þurfum að gera betur og við erum ekki búin að ná þessu. Ég held að meira að segja menntamálaráðherra sjái það. Við erum ekki búin að ná OECD-viðmiðinu eða Norðurlandaviðmiðinu, við erum enn fjarri því. Lífvísindasetur Háskóla Íslands gerði athugasemdir við framlög til samkeppnissjóða Vísinda- og tækniráðs. Ég gat aðeins um nokkra sjóði sem fá aðhaldskröfu eða niðurskurð milli ára. Ég veit að það koma 50 milljónir í Rannsóknasjóð, það er pínulítið, hann er upp á 3 milljarða eða hvað það er. Við þurfum að huga betur að sjóðunum, hvort sem það er Innviðasjóður, Sprotasjóður, Rannsóknasjóður, Markáætlun eða hvað allir þessir sjóðir heita.

Ég hef áhyggjur af framhaldsskólunum. Ég ætla ekki að eyða tíma í það, ég sé enga stórsókn þar. Kennarasambandið hefur áður bent á það að framhaldsskólastigið er ekki búið að jafna sig á langvarandi og alvarlegu fjársvelti. Ég tók saman hvaða framhaldsskólar fá raunlækkun á milli ára í frumvarpinu. Þeir framhaldsskólar sem ég sá sem fá minna á næsta ári en núna eru: Menntaskólinn í Reykjavík, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólann á Egilsstöðum, Menntaskólinn á Laugarvatni, Flensborgarskólann, Fjölbrautaskóli Suðurlands, Verkmenntaskólinn á Austurlandi, Verkmenntaskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn í Austur-Skaftafellssýslu og Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ. Hugsanlega getur lækkunin orðið enn meiri þegar tekið er tillit til greiddrar leigu þeirra. Ég hef aðeins heyrt í nokkrum framhaldsskólum sem segja — við þurfum bara skoða það aðeins betur — að þeir fjármunir sem renni til framhaldsskólanna fari að hluta til til þeirra en komi síðan til baka vegna greiddrar leigu. Ég þekki ekki alveg þessa umræðu og ég svona flagga því að þetta er eitthvað sem þyrfti að skoða.

Frú forseti. Ég lýsti í upphafi míns máls miklum áhyggjum af þessum risaniðurskurði í kvikmyndagerð. Þetta eru umtalsverðar upphæðir fyrir þennan geira. Það er áætlað að skera niður um tæp 30%. Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda hafa komið á framfæri alvarlegum athugasemdum við þessa staðreynd. Ég hef mikla trú á kvikmynda- og sjónvarpsgerð og hver einasta króna sem hið opinbera setur í þennan geira skilar sér margfalt til baka. Það hafa verið gerðar úttektir á þessu, þetta er bara góð hagfræði o.s.frv. Við fáum frekari verkefni með svona stuðningskerfi. Þess vegna eigum við ekki að draga þar til baka heldur eigum við að setja meira í. Ég vil minna á að ég lagði til ásamt Samfylkingunni breytingartillögu um að við myndum setja aukna fjármuni í svokallaðan sjónvarpssjóð, en auðvitað var sú tillaga felld af öllum þingmönnum VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins. Þetta er eitthvað sem við þyrftum að skoða.

Heilbrigðismálin glíma enn við mikinn vanda. Hallinn á LSH stefnir í 4 milljarða að öllu óbreyttu. Ég rifja það upp að þegar við ræddum fjármálaáætlun kom umsögn frá Landspítalanum sem taldi sig vanta 87 milljarða næstu fimm árin. Ég man að við í nefndinni bara hváðum, 87 milljarðar. Þetta var í umsögn Landspítalans um fjármálaáætlun sem var lögð fram fyrir tveimur árum. Ég er ekkert að segja að peningar leysi allan vanda. En það er svo augljóst að Landspítalinn, sem er endastöð íslenska heilbrigðiskerfisins, þarf meiri fjármuni. Þetta var kosningamálið 2017. Þjóðin vildi leggja mesta áherslu á þetta. Ég veit að hér geta ráðherrar og þingmenn sagt: Já, við höfum samt bætt í. En þetta dugar ekki, því miður. Forstjóri Landspítalans hefur talað um umfangsmiklar aðhaldsaðgerðir og við erum enn að fá fréttir um vanda bráðamóttökunnar og um tíma voru á annað hundrað eldri borgarar sem bjuggu þar o.s.frv. Ég er ekki sammála þeim sem segja að Landspítalinn sé að kljást við einhvern stjórnenda- eða skipulagsvanda. Ég held einmitt að Landspítalinn hafi staðið sig vel í að tækla erfiða fjárhagsstöðu í umhverfi þar sem hann ræður ekki eftirspurn eftir sinni þjónustu. Ég vil hrósa forsvarsmönnum Landspítalans frekar en hitt.

Við sjáum að heilbrigðisstofnanir úti á landi kalla líka eftir auknu fjármagni. Ég held að þær hafi kallað eftir 800–900 milljónum á fundi með okkur og þær er hvergi að sjá að þessu sinni. Ef heilbrigðisstofnanir úti á landi, sjúkrahúsþjónustan þar, nær ekki að sinna því sem hún á að sinna, þá lendir það á Landspítalanum. Vandinn hverfur ekkert, fólk veikist, slasast og eldist burt séð frá fjárlögum. Ég veit að það verða kannski aldrei nægir peningar í heilbrigðismálin, ég átta mig á því, en við getum sett enn meira í þau með þeim tekjuleiðum sem ég hef verið að lýsa hérna.

Samgöngumálin, það eru aðrir þingmenn betri en ég í þeim. En ég ætla bara að minna á þá þörf sem er víða um land. Ég gat um löggæsluna áðan, mér fannst sérkennilegt að það yrði sérstakur niðurskurður til almennrar löggæslu. Við megum ekki rugla þessum tölum saman. Ég veit að hér hafa peningar farið í ríkislögreglustjóra eða þyrlur eða annað slíkt, en ef maður skoðar almenna löggæslu þá er lækkun þar um 400 milljónir.

Herra forseti. Umhverfismálin eru, eins og ég gat um áðan, mál málanna. Hér er mikið búið að tala um loftslagsáætlanir og búið að halda ansi marga blaðamannafundi um hvað við séum frábær í umhverfismálum. Við erum það ekki. Við sjáum að raunaukningin í málefnasvið umhverfismála er um milljarður. Það hljómar allt í lagi miðað við svið sem tekur 20, en 60% af því er vegna aukinna tekna endurvinnslunnar sem almenningur greiðir. Það er áhugavert. Ef maður fer aðeins dýpra en í frasana þá sér maður þetta, 60% af raunaukningunni, nettóaukningunni, er endurvinnslan. Ég er ekki að gera lítið úr henni en þetta er áhugavert og kannski þvert á það sem almenningur heldur. Kolefnisgjaldið er enn lægra en til stóð þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum. Ríkisstjórn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks ætlaði að hækka kolefnisgjaldið enn meira og það er sérkennilegt að ríkisstjórn sem leidd er af Vinstri grænum hafi ekki treyst sér til a.m.k. að hækka kolefnisgjald í það sem Viðreisn og Björt framtíð vildu.

Ég vil sérstaklega minna á það að við þurfum að gæta að lykileftirlitsstofnunum í landinu. Eftirlitið er enginn baggi á atvinnulífinu. Ég nálgast það ekki þannig. Öflugar eftirlitsstofnanir geta aukið skilvirkni í samfélaginu. Samkeppniseftirlitið skiptir máli til að tryggja samkeppni. Það er ekki, eins og mér finnst ég oft heyra, kannski úr þessum sal eða jafnvel fyrir utan hann, íþyngjandi bákn. Alls ekki. Samkeppniseftirlitið stuðlar að aukinni samkeppni sem eykur hagkvæmni, skilvirkni og hag neytenda. Við búum í litlu hagkerfi þar sem fákeppnismarkaður er á lykilmörkuðum og þess vegna skiptir Samkeppniseftirlitið miklu máli. Ég vona að hugmyndir um að þrengja að því nái ekki fram að ganga. Svo erum við með aðrar mikilvægar eftirlitsstofnanir; skattrannsóknarstjóra, Fiskistofu, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun o.s.frv. Við þurfum að tryggja að þær fái nauðsynlegt fjármagn til að sinna sínu starfi með sóma en líka til að geta sinnt starfi sínu hratt. Seinagangur er það sem atvinnulífið hefur verið að kvarta yfir. Það ætti að vera hagur, ekki síst lítilla fyrirtækja og meðalstórra, að hafa eftirlitsstofnanir sem vinna hratt og vel. Engin geimvísindi að mínu mati.

Framlög til þróunarsamvinnu átti að skera niður um 300 milljónir en meiri hluti nefndarinnar ákveður að bakka með það og er það fagnaðarefni. Það er auðvitað ýmislegt jákvætt sem nefndin gerir og það er kannski þeirra hlutverk að draga það fram. En þetta skiptir máli og við þurfum að setja meira í þróunarsamvinnu. Ég minni aftur á að við erum tíunda ríkasta þjóð í heimi og ég minni líka á það að Ísland þáði þróunaraðstoð fram til 1976. Það er ekki svo langt síðan við vorum í þeirri stöðu að þurfa að þiggja þróunaraðstoð. Ég held að það sé hollt fyrir okkur að muna það. Ég minni líka á að þegar hér varð hrun fyrir tíu árum fengum við þróunaraðstoð, eða hvað við getum kallað það, þurftum að þiggja alþjóðlega aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum ásamt öðrum þjóðum þegar við vorum í miklum vanda. Nú getum við rétt úr kútnum og lagt meira af mörkum. Það getur enginn slegið slöku við í þessu. Við erum eitt mannkyn og það er ekkert langt síðan við þurftum á slíkri aðstoð að halda.

Aðeins varðandi tekjuhliðina. Ég er svo sem búinn að ræða aðeins um það og ætla ekki að endurtaka mína punkta um veiðileyfagjaldið, en aðeins um fjármagnstekjuskattinn. Við sjáum að hann hefur skilað minna í ríkiskassann en gert hefur verið ráð fyrir. Ég veit að þetta er sveiflukenndur skattstofn og fer eftir efnahagslífinu. En til að sýna hvað fjármagnstekjuskatturinn á vel við þá sem hafa hæstar tekjurnar minni ég á að einungis 2% fjölskyldna greiddu fjármagnstekjuskatt vegna söluhagnaðar af hlutabréfum. Mig minnir að langstærsti hlutinn greiði ekki fjármagnstekjuskatt út af frítekjumarkinu. Það var sett frítekjumark. Fólk getur haft fjármagnstekjur án þess að greiða fjármagnstekjuskatt. Þetta gerir skatturinn upp. Frítekjumark er ekkert sérstaklega gamalt en það var einmitt vinstri stjórn sem setti það inn. Hækkun fjármagnstekjuskatts mun bara ná til hinna ríku af því að við höfum frítekjumark, ef menn hafa áhyggjur af því, og við gætum jafnvel hækkað það. Svo er það bankaskatturinn, en það virðist vera sérkennileg forgangsröðun að fara að lækka hann um 8 milljarða. Ég veit vel að þetta er skrýtinn skattur, hann er að skattleggja skuldir og annað slíkt og hann mun einhvern tíma renna sitt skeið á enda en ég velti fyrir mér: Er þetta rétti tíminn til að lækka bankaskattinn? Það er verið að þrengja að ýmsum lykilatriðum í velferðarkerfinu og skólamálunum og ég get hugsað um ýmislegt annað sem við í þessum sal gætum notað þessa 8 milljarða í, a.m.k. á þessum tímapunkti.

Lækkun tryggingagjaldsins sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir er tímabær og við höfum talað fyrir því. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram þingmál sem snýr einmitt að því að bæta hag lítilla og meðalstórra fyrirtækja, m.a. með því að skoða þetta blessaða tryggingagjald. Og svo ég sé nú eitthvað jákvæður finnst mér jákvætt að bæta við þriðja skattþrepinu. En betur má ef duga skal. ASÍ og fleiri hafa gagnrýnt það að þetta sé að gerast of seint í tíma og annað slíkt. Ég læt þá um þá gagnrýni, en allt í lagi að hafa það í huga. Ég minni sömuleiðis á eðlilega kröfu sveitarfélaganna um að gistináttaskatturinn fari til þeirra. Ég held að flestir flokkar hafi ályktað um það á sínum landsfundum. Ríkisstjórnarflokkarnir fengu nú tækifæri til að styðja þá tillögu því að við lögðum hana til og þeir felldu hana að sjálfsögðu. Meiri hlutinn felldi það án þess að blikna. Það eru ýmsar tekjuleiðir sem við getum skoðað.

Að lokum, ég veit að ég er búinn að segja það nokkrum sinnum, er í fjárlagafrumvarpinu heimild til að selja bankana til einkaaðila. Hér hefur mönnum orðið tíðrætt um þá áhættu sem ríki og þar af leiðandi skattgreiðendur búa við að eiga hlut í fjármálafyrirtækjum. Ég vil snúa þessu aðeins við. Ég vil að þingheimur og almenningur velti fyrir sér þeirri áhættu sem almenningur býr við þegar einkaaðilar eiga bankana. Það tók einkarekið bankakerfi einungis fjögur ár að keyra hér allt í kaf, í heimssögulegt hrun á þeim skala að gjaldþrot íslensku bankanna, sé það tekið saman, hefði verið fjórða stærsta gjaldþrot í sögu Bandaríkjanna. Hér hræða sporin svo sannarlega. Hér þurfum við að fara varlega. Auðvitað munu einkaaðilar alltaf gegna ákveðnu hlutverki á fjármálamarkaði en ég velti því fyrir mér hvort við eigum ekki að fara varlega, hvort það sé ekki bara allt í lagi að ríkið eigi þessa tvo banka um sinn a.m.k. Á meðan höfum við tækifæri til að hugsa fjármálakerfið upp á nýtt og hv. þm. Oddný Harðardóttir hefur oft bent á ýmsar góðar leiðir til að ná fram nýju bankakerfi og fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum neytenda. Hún hefur sömuleiðis bent á að bankakerfi og fjármálakerfi eru kannski miklu líkari veitukerfi en einhverju öðru. Þetta er ekki eins og hver annar bisness, ef svo má segja, sérstaklega vegna þess að ef hann fer illa þá munum við súpa seyðið af því. Það eru ellefu ár síðan við gerðum það.

Frú forseti. Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég sé að það er margt í þessu frumvarpi sem betur mætti fara. Samfylkingin býður þingmönnum upp á það tækifæri að bæta örlítið við frumvarpið án þess að missa tök á ábyrgum ríkisfjármálum og öðru slíku. Þetta eru hógværar tillögur. Við höfum sömuleiðis hugmyndir um hvernig megi afla tekna sem væri hægt að tryggja í 3. umr. ef vilji væri til þess, því að enn þá erum við að skilja ákveðinn hóp eftir; barnafólk, milli- og lágtekjufólk, öryrkja og aldraðra, skólafólk, og í raun er stór hluti almennings illa svikinn af þessu frumvarpi. Ég veit mætavel að ekki er hægt að gera allt fyrir alla, en hér er svo sannarlega hægt að gera aðeins meira.

(Forseti (BN): Forseti vill benda hv. þingmanni á að hann er ekki frú, a.m.k. ekki enn þá.)