150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:05]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í grundvallaratriðum er ég ósammála sjónarmiðum hans en sumt af því sem hann nefnir hér skal ég alveg taka undir. Hann nefnir fyrst það stóra verkefni okkar, sem hann kom ágætlega inn á í ræðu sinni, sem er um málefni og fjárhag hjúkrunarheimila. Rétt eins og hann tíundaði er það ekkert nýr vandi og við þurfum með einhverjum hætti að bregðast við. En það sem mér þótti aftur á móti áhugavert, þegar ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns, var það sem hann fjallaði ekki um. Mér fannst það óverðskuldað, ef ég má segja það, herra forseti, að hann skyldi ekki ræða hvernig þetta fjárlagafrumvarp og ríkisfjármálastefnan styður við þá efnahagsniðursveiflu sem við höfum þurft að takast á við um tíma. Ég er hins vegar í grundvallaratriðum ósammála hv. þingmanni, því sem hann rekur í upphafi nefndarálits síns og ræðu, um að hér sé slóð svikinna loforða, síður en svo. Ég bendi hv. þingmanni á að lesa ágæta samantekt á bls. 8 í nefndaráliti meiri hlutans sem ég vísaði til í fyrra andsvari mínu við hv. þingmann.