150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Lítum aðeins á hagstjórnina. Hvað vorum við að ræða í gær? Við vorum að ræða fjáraukalög sem gerðu ráð fyrir að í fjárlögum 2019 hefði verið gert ráð fyrir afgangi á ríkissjóði upp á 30 milljarða. Það var ykkar plan, 30 milljarðar í plús árið 2019. Sveiflan núna er niður í 15 milljarða í mínus. Sveiflan er tæpir 44 milljarðar. Ég veit ekki hversu góð hagstjórn það er að standa svona að áætlunargerð. Ég veit að margt er fyrir utan stjórn ykkar. Við sjáum að loðnan brast. Við sjáum Brexit í gangi o.s.frv. en hagstjórn er ekki eitthvað sem ég myndi hrósa ykkur fyrir. Mér finnst hagstjórnin vera slæm. Mér finnst hún byggja á veikum grunni, forsendurnar sem þið byggið á standast iðulega ekki og tölurnar, hvort sem það er í fjáraukalögum eða fjárlögum, virðast ekki vera í samræmi við skynsamlega og raunsæja áætlunargerð.