150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[16:29]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Sá þingmaður sem hér er kveinkar sér ekki undan því að ræða eins frábært plagg og fjárlagafrumvarp næsta árs er, kveinkaði sér heldur ekki undan því að ræða fjármálastefnu eða fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það sem hv. þingmaður var fyrst og fremst að benda á er að það væri hægt að hafa þessa umræðu öllu skemmtilegri og líflegri því að það er bara ansi langt að hlusta á klukkutímalangar ræður, jafnvel þó að vinnan á bak við þær sé góð og að allt sem fram kemur í nefndarálitinu kunni að vera unnið af góðum hug. Flestir ættu að geta komið sínu á framfæri á 20 mínútum eins og ég held að viðgangist í öllum þjóðþingum í kringum okkur, þar eru ræðurnar öllu styttri og þá tekur fólk þátt og fer í andsvör. Við gætum átt málefnalegar og skemmtilegar umræður. En þetta er í mínum huga uppskrift að frekar leiðinlegum þingdögum, virðulegur forseti.