150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið og er sammála honum, það er mikilvægt að lækka skatta, lækka tryggingagjaldið, lækka álögur á einstaklinga og fyrirtæki, lækka tekjuskatta og draga úr skattbyrðinni, sérstaklega á hópa með lægri tekjur og millitekjuhópa eins og verið er að gera.

Hv. þingmaður ræddi um ferðaþjónustuna og ég tek undir með honum að það er mikilvægt að við gætum að þessari atvinnugrein sem vegur alltaf meira og meira í verðmætasköpuninni. Það er þó þannig að ef við horfum á tímabilið frá 2017 þá höfum við aukið framlög til ferðaþjónustunnar. Við erum að tala um Ferðamálastofu, Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, rannsóknir og markaðsmál og þar erum við að auka í á milli ára. En svo er auðvitað verið að falla frá 2,5 milljarða skattlagningu sem áformuð var, sem ætti að skipta miklu máli við þær aðstæður sem nú eru.