150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:39]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Losunarheimildir eru til komnar vegna framleiðslu Íslands á hreinni orku og fyrirtæki kaupa þær til að geta staðið að starfsemi sinni en það hvetur til orkuskipta. Losunarheimildir hækka stöðugt í verði. Við erum sem sagt að hagnast á okkar grænu orku en aðstoðum um leið aðra við að breyta sínu fyrirkomulagi í rekstri. Við gerum gagn hér heima með því að afla 4,8 milljarða kr. með sölu losunarheimilda, nýtum féð hér heima, en gögnumst um leið alþjóðaviðskiptalífinu og gerum þannig gagn í loftslagsmálum í heild sinni.

Þegar Miðflokksmenn ýja að því í áliti sínu að Íslendingar þurfi einn góðan veðurdag að kaupa losunarheimildir vegna slælegra vinnubragða við að minnka eigin losun, þá tel ég það vera skot út í loftið að svo komnu máli. Ég ætla að spyrja hv. þm. Birgi Þórarinsson að því hver rökin séu fyrir þessari spá eða fullyrðingu.