150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Mér finnst kjarninn í þessu máli vera sá að þetta er í annað sinn sem verið er að selja losunarheimildir og þetta var gagnrýnt líka í síðustu fjárlagavinnu héðan úr ræðustól. Þá voru heimildir veittar til að selja fyrir u.þ.b. 2,5 milljarða og nú er þetta komið í tæpa 5 milljarða. Það er alveg ljóst, eins og hv. þingmaður nefndi, að þessar heimildir eru verðmætar. Þá spyr maður sig: Hvers vegna er þá verið að selja þessar heimildir í þessum tilgangi? Verður þetta ekki enn þá verðmætara þegar fram líða stundir? Það er alveg ljóst að með því að selja þessar heimildir þá er hugsanlega verið að fara á mis við verðmæti sem við gætum þá fengið síðar. Ég tel þessa ráðstöfun ekki skynsamlega, líka í ljósi þess að verið er að hækka kolefnisgjöld (Forseti hringir.) eins og ég rakti réttilega í minni ræðu, á sama tíma og verið er að selja losunarheimildir. Er einhver skynsemi í þeim málflutningi? Hv. þingmaður getur kannski svarað því.