150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[17:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég á eftir að sjá að þessi aðferðafræði hv. þingmanns myndi ganga eftir, sérstaklega þegar við erum ítrekað búin að segja í þessum sal og margoft verið haldið fram að við stjórnmálamennirnir eigum ekki að vera að skipta okkur af beinum rekstri Landsbankans, við erum með apparat til þess sem heitir Bankasýsla ríkisins og við eigum ekki að vera að hlutast til um einstakar ákvarðanir þar eða það hélt ég að væri hugmyndin.

Mig langar hins vegar í seinna andsvari að spyrja hv. þingmann aðeins út í urðunarskatt sem fær dálítið pláss í nefndaráliti þingmannsins og ég fagna því hvað það er jákvæður andi í þeim kafla í garð þess að við þurfum að draga úr urðun. Hins vegar langar mig að spyrja þingmanninn hvort hann hafi einhverjar tillögur í því (Forseti hringir.) hvernig eigi að draga úr því að fyrirtæki eru ábyrg fyrir langstærstum hluta urðunarinnar. (Forseti hringir.) Verðum við ekki með einhverju móti að leggja á þau gjöld til að fá þau til að taka upp betri hætti í flokkun?