150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið nefndarálit hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar og hlustað á ræðu hans og verð að viðurkenna að ég skil heldur ekki þá pólitík sem hv. þingmaður talar fyrir. Ég er heldur ekki miklu nær um hana eftir orðaskipti hans og hv. þm. Haraldar Benediktssonar í andsvörum. Ég heyri það vissulega að hv. þingmaður kallar eftir því að fá betri kostnaðar- og ábatagreiningar en ég átta mig ekki alveg á því hvað það er sem þingmaðurinn ætlar að gera við þær ef hann hefur ekki einhverja pólitíska sýn eða „platform“ — afsakið slettuna, herra forseti — um það í hvað hann ætli að nota þessar kostnaðar- og ábatagreiningar. Hv. þingmaður talar um að pólitík hverfi ekki með slíkum greiningum. En ég vil snúa þessu við. Maður þarf að hafa einhverja pólitík til þess að geta nýtt sér slíkar greiningar.

Ég hef reynt að kafa ofan í og finna þá pólitík hér. Hv. þingmaður talaði um mylsnuhagkerfi versus grunnframfærslu og mig langar því að spyrja: Er það brauðmolakenningin sem hv. þingmaður er að vísa í, þ.e. að bitarnir hrynji frá hinum ríku og niður til hinna fátæku? Og mig langar að spyrja: Hvernig er hægt að stilla henni upp á móti hugmyndum um grunnframfærslu? Grunnframfærslan snýst um það að smyrja jafnt á alla, eins og ég hef a.m.k. skilið skilyrðislausa grunnframfærslu, og er í rauninni það sama og kemur fram í breytingartillögu hv. þingmanns um útgreiðslu á persónuafslætti. Ég sé ekki (Forseti hringir.) hvernig þessar aðgerðir verði til þess að forgangsraða peningum til þeirra sem hafa minna í samfélaginu. Þess vegna vil ég biðja hv. þingmann um að útskýra þetta því ég bara skil ekki þessa pólitík.