150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:03]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var áhugavert. Ég viðurkenni það tvímælalaust að ég verð svartsýnni eftir því sem á líður og tónninn breytist kannski eftir því þó að innihaldið sé í raun það sama.

Þetta er hliðrun á fjármögnun nýs Landspítala og ég kom einmitt skýrt inn á það. Hvað gefur til kynna að sú hliðrun virki? Það verður aukið álag á seinni árum og aukið álag gefur tækifæri fyrir meiri mistök. Það er einfaldlega þannig. Það sem ég gagnrýndi sérstaklega er að það kemur þarna inn 3,5 milljarða kr. töf, í rauninni, afturköllun á fjárheimildum fyrir þennan tíma, en hún var ekki útskýrð. (Gripið fram í.) Ekki á fullnægjandi hátt. Það var bara sagt að það yrðu tafir. Ég hef heyrt það áður. Ég hef heyrt þessa afsökun áður um að það séu tafir, í fjármálaáætlun varðandi hjúkrunarheimilin o.s.frv., en maður fær ekkert konkret nema bara að það séu tafir. Það eru engin gögn þar á bak við. Þess vegna skipta kostnaðar- og ábatagreiningar einmitt máli. Það er ekki búið að gera mikið annað en að grafa þarna undanfarið. Hvernig er hægt að tefja upp á 3,5 milljarða? Hvernig er hægt að fara í auknar framkvæmdir á næstu árum þar á eftir en ekki núna? Það komu ekki útskýringar. Það er það sem ég gagnrýni. Ef allar áætlanir standast þá er það flott, endilega, gerum þetta svona. Stenst það að hægt sé að fara í auknar framkvæmdir á næstu árum eftir það eða stenst það ekki? Á hvaða forsendum er það? Ekkert svoleiðis. Það er það sem ég gagnrýni.