150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er þá ágætt, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að þetta dæmi sem hv. þingmaður tekur hefur ekki með kostnaðar- og ábatagreiningu að gera heldur þær upplýsingar sem fylgdu um tímann. (Gripið fram í.) Þá liggur það fyrir. Það er alveg hægt að deila áhyggjum af því þegar svona risastórt verkefni tefst en það þarf ekki endilega að þýða að það nái ekki að vinnast á tíma framkvæmdaáætlunar og við höfum fengið upplýsingar um það og hvað lagt er upp með.

Ég ætlaði í seinna andsvari að spyrja út í stóru efnahagsmyndina. Ég hef orðað það þannig að við höfum fengið staðfestingu á því að ríkisfjármálastefna og peningamálastefnu séu að vinna í sömu átt og ríkisfjármálastefnan hönnuð til að veita viðspyrnu í hagkerfinu og hér erum við að gefa eftir afkomu, skilja peningana eftir út í hagkerfinu. Ég bið um skoðun hv. þingmanns á þeirri stefnu, og það er mælt í krónum.