150. löggjafarþing — 31. fundur,  13. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[22:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Willum Þór Þórsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er ánægjulegt að sjá stýrivaxtalækkanir. Ég veit að hv. þingmaður hefur barist fyrir því og talað um það og það hefði verið æskilegt að það lækkunarferli hefði gerst hraðar og fyrr. Það er hins vegar mjög ánægjulegt að sjá að það hefur verið að gerast og það er í takt við ríkisfjármálastefnu sem er beinlínis hönnuð til að veita viðspyrnu í hagkerfinu. Það ánægjulega er að við sjáum nú, sem oft hefur ekki verið raunin, peningamálastefnuna — hárrétt hjá hv. þingmanni, við erum með sjálfstæða peningamálastefnu — vinna í takt við ríkisfjármálastefnu. Það eru svolítið nýir og breyttir tímar og í samhengi við hóflegar launahækkanir og lífskjarasamninginn. Við sjáum samhengi í þessu.

Ég kom hingað upp af því að ég veit að hv. þingmaður er afar spenntur og glaður yfir því að sjá, ef ég skildi hann rétt, Landspítalann rísa við Hringbraut. Hann hafði miklar áhyggjur af því að hér væri tillaga, sem er rétt, um 3.500 millj. kr. Ég vil bara halda því til haga að þetta er vegna hliðrunar sem skýrist m.a. af verklegri framkvæmd við gatnagerð og jarðvinnu meðferðarkjarnans með hliðsjón af núverandi samningi. Það hefur verið ákveðið að fullvinna grunn hússins áður en næsti verktaki í uppsteypu hefur störf. Þessi hliðrun hefur í för með sér að uppsteypa meðferðarkjarnans og önnur jarðvinnuverkefni hliðrast á árinu 2020 til ársins 2021. Ég veit að hv. þingmaður þekkir fjárlögin og veit að við erum ekki að gefa út fjárheimildir ef þær nýtast ekki inn á árið. Þetta er samkvæmt áætlunum. Eftir sem áður get ég glatt hv. þingmann með því að ekki er gert ráð fyrir öðru en að meðferðarkjarninn verði tilbúinn sem byggingarframkvæmd 2024 (Forseti hringir.) eins og segir í áætluninni.