150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[15:54]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er alltaf sérstaklega gaman þegar hæstv. fjármálaráðherra verður rökþrota. Fyrst fær hann svona rauðar eplakinnar, svo verður hann reiður og byrstir sig og byrjar svo í þriðja lagi að varpa skömmum á Samfylkinguna og það vantaði bara í ræðuna að við vildum alltaf hækka skatta, en hann kemur kannski með hana á eftir. Hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað hér í umræðu um fjárlög talað um að fjárveitingavaldið sé í höndum þingsins og það þýði ekkert að vera að varpa ábyrgðinni á hann. En í þessu máli kýs hann að taka völdin og deila út peningum eins og honum þóknast. Það þýðir heldur ekki að saka einhvern um óvarleg ummæli vegna þess að eins og hv. þm. Ágúst Ólafur talaði um þá stendur í 24. gr. um varasjóðinn að það megi nota hann ef „ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum“. Það er hægt og það gerum við í fjárlögum og það eigum við að gera á morgun.